Kynslóðaskipti í Minnivallalæk

Minnivallalækur, Arnarhólsflúð
Arnarhólsflúð í Minnivallalæk ljósaskiptunum. Mynd -gg.

Sumarið hefur verið nokkuð gott í Minnivallalæk í sumar þrátt fyrir slaka byrjun í vor vegna kulda. VoV er á staðnum núna og eru 200 fiskar í bók. Lítið er stundað þegar komið er fram á haust, síðast voru hér veiðimen um síðustu helgi og veiddu á þriðja tug fiska, þannig að eftir einhverju er að slægjast. Lítil ástundun.

VoV er nú á staðnum og seinni partinn skiluðust fjórir í bók. Það eru árgangaskipti í gangi í ánni, afskapelega jákvæð þó að maður kveðji risarisana með söknuði. Þeir eru dauðir úr elli, en sterkir árgangar að koma upp.
Það er sem sagt mikið af fremur smáum urriða í ánni núna, en samt eru a.m.k. 76 af 200 fiskum í bók á bilinu 50 til 69 cm. Kannski vekur mestu athyglina að snemma í vor veiddust þrjár bleikjur í ánni, sem aldrei sjást hér og voru þær 65, 66 og 69 cm, sem sagt algjörar kusur.
Eftir þurrviðrasamt og fremur hlýtt sumar er áin núna vatnslítil og algerlega pökkuð af slýi. En samt veiðanleg og allir vita að með haustinu finnur urriðinn fyrir skapgerðartruflunum og verður æstari að taka. VoV hefur oft komið hér að hausti áður og veitt vel. Það stefnir í það sama nú.