Tröllin eru að gefa sig að venju þegar haustar

Hörður Birgir með tröllið úr Árbæjarhyl, sem var svo ekki yfir 100 cm, en samt góður og gegn 95 cm drjóli.....fyrir Elliðaárnar er það eins og að landa 110 cm laxi....

Margir veiðimenn sem hafa lagt leið sína í Elliðaárnar í sumar hafa rekist á stórfiskinn í Árbæjarhyl sem hefur sýnt sig af og til. Nokkrar sögur eru til þar sem menn hafa sett í hann en þær viðureignir hafa verið mjög stuttar!

En svo var höfðinginn sigraður, en þá kom í lljós að hann var ekki hundrað plús heldur 95 cm eins og það sé ekki í lagi. Á vef SVFR segir: „Hörður Birgir Hafsteinsson átti síðdegisvakt í ánum í dag og um kl. 18 setti hann í og landaði höfðingjanum sem tók Munroe Killer #16.  Það var mikið af fiski í hylnum og Hörður búinn að prófa nokkrar flugur en það var ekki fyrr en Munroe Killerinn fór undir að hann fékk þennan höfðingja til að taka.  Fiskurinn var mældur 95 cm að lengd og klárlega fiskur í yfirstærð sé miðað við meðalstærð í Elliðaánum.

Tveir tveggja ára, báðir nefstórir að sögn veiðimannsins, Árna Balurssonar. Þetta er við Bergsnös í Stóru Laxá og laxinn ca meterinn. Myndina tók Valgerður dóttir Árna.
Frelsinu feginn, þótti félagsskapurinn ekki spennandi….

Á sama tíma eru menn að tína upp tröllin í Stóru Laxá. Þetta er ekki alveg eins og stundum og frábært samt og Árni leigutaki sjálfur, með aðstoð Völu dóttur sinnar landaði einum um hundrað sentimetrana, ætlum ekki að tala um hundrað karla hérna….