Veitt á efsta svæði Eystri Rangár, fossinn í baksýn.

Yfirreiðin heldur hér áfram, Eystri Rangá var með stórt og mikið met, alls veiddust í ánni 9070 laxar en metið sem féll var frá hinu gagnmerka ári 2007 en þá veiddust 7473 laxar í Eystri Rangá. Vart þar að taka fram að áin var með lang hæstu heildartöluna yfir landið og var langt í næstu á. Hér kemur allskonar tölfræði úr ánni frá metsumrinu.

Þessar tölur fengum við frá Gunnari Guðjónssyni leiðsögumanni við ána sem lagði það á sig að taka þetta saman. Sem fyrr segir var heildarveiðin 9070 laxar. Veiði hófst 15.júní og lauk 20.október. Þetta er lengri vertíð heldur en gengur og gerist en það sama á við fleiri ár þar sem veiðin er borin uppi af gönguseiðasleppingum. Augljóslega heppnuðust þær vel. En áður en við hendum okkur út í talnarunurnar þá skal nefnt að samkvæmt angling.is eru alls 18 stangir í ánni og henni skipt í 9 veiðisvæði.

Bjarni Júlíusson með gríðarlega væna hrygnu úr Eystri Rangá. Myndina tók Ásgeir Heiðar.

Vorveiðin, þ.e.a.s. júníveiðin var prýðileg. Þá eru menn að veiða stórlaxa sem notaðir eru í undaneldið. Alls veiddust þá 147 laxar. Veiddist lax á öllum svæðum, mismikið þó frá einu svæði til annars.

Í júlí fór að hitna í kolunum. Þá veiddust 3453 laxar. Besti dagurinn af mörgum góðum var 26.7 en þá var 232 löxum landað.

En þetta átti aðeins eftir að hressast! Í ágúst var sama brjálaða stuðið og alls veiddust þá 3609 laxar. Sérstaka athygli vakti tímabilið 20.-23.ágúst en alls var þá landað 1115 löxum, 260 þann 20.8, 284 þann 21.8, 276 þann 22.8 og 295 þann 23.8. Þá voru margir dagar með veiði yfir hundraðið.

Adam Fijalkowski með sinn fyrsta lax, dreginn úr Eystri Rangá, 83 cm hrygna. Hann á ekki langt að sækja það, pabbi hans er Cezary Fijalkowski, einn öflugasti fluguveiðimaður landsins.

Í september fór þetta aðeins að dala, eðli málsins samkvæmt en samt var veiði góð, mánuðurinn gaf alls 1115 laxa og besti dagurinn var 3.9 þegar 118 laxar komu á land.

Í október var haustbragurinn kominn af þunga, en það var svo miikið af laxi að þá einnig voru margir fínir dagar og mánuðurinn gaf alls  748 laxa. Lokadagur var 20.10 eins og fram kom hér framar.

Talsvert var sleppt af laxi, alls 2861 stk en það er 31,5 % af veiðinni. Mikið var talað um stórlaxaveislu í ánni og satt var það, ekki skorti þá fiska. En mest af veiðinni var frá 69 cm og niður úr, það sem myndi teljast eins árs lax samkvæmt kvarðanum sem miðar sleppingar á stórlaxi við að hann sé orðinn í það minnsta 70 cm.

Þessi glæsilega hrygna veiddist í Eystri Rangá. Myndin er fengin af veida.is

Alls voru 7936 laxar frá 69 cm og þar undir, er það 87% af veiðinni.

602 laxar voru 70-79 cm, eða 6,6%.

431 lax var 80-89 cm, eða 4,8%.

101 lax var 90 cm og þar yfir, eða 1,1%.

Sem fyrr segir er áin veidd með 18 stöngum skv upplýsingum af angling.is og svæðin eru níu talsins. Til að ljúka þessu skulum við sundurliða veiðina á hverju svæði:

Svæði 1 : 1861 lax, eða 20,5%

Svæði 2 :   581  lax  eða 6,4%

Svæði  3: 1831  lax, eða 20,2%

Svæði 4 :   644  laxar eða 7,1%

Svæði 5 :   927  laxar eða 10,2%

Svæði 6 :   691   lax eða 7,6%

Svæði 7 :  1291  lax eða 14,2%

Svæði 8 :    823  laxar eða 9,1%

Svæði 9 :    427  laxar eða 4,7%

Reynir M Friðriksson með einn í stærri kantinum úr Eystri Rangá. Myndin er fengin af FB síðu Reynis.

Þetta er hörku árangur, en þarna voru að skila sér síðustu árgangarnir sem Einar Lúðvíksson hafði umsjón með. Þeir sem við keflinu tóku hafa fylgt þeim vinnubrögðum og Jóhann Davíð Snorrason, sem er nýr umsjónarmaður veiðileyfa, sagði við VoV fyrr í haust að menn væntu hins sama 2021. Gangi það eftir verður mikið havarí á bökkum Eystri Rangár.