Að missa fisk eða að missa ekki fisk – kafli úr Dagbók Urriða

Bókarhöfundur á fjöllum með fallegan afla.

Hér birtum við með leyfi höfundar og útgefandans Sölku, kaflabrot úr bókinni Dagbók Urriða eftir Ólaf Tómas Guðbjartsson.

„Þó að það kunni að hljóma ótrúlega, þá voru það fiskar sem ég missti ekki sem urðu mér hvað sárastir á yngri árum. Ég reyndi nefnilega lengi á yngri árum að fá minn fyrsta lax á land. Í dag lít ég til baka og kann mun betur að meta alla þá flottu silunga sem ég þó fékk í þessum tilraunum mínum til laxveiða.

Eitt sinn var ég við bryggjuna á Blönduósi að veiða sjóbleikju eins og svo oft áður. Ég hafði þá þegar glímt við stórfiskinn við hafnargarðinn og var því, að mér fannst, betur í stakk búinn andlega til að glíma við stórfiska. Þar í fjörunni set ég í lax sem rýkur út með alla línuna, stekkur og stekkur, og þegar ég náði loks að landa honum reif ég í tálknin á honum og hljóp með hann upp fyrir grjótgarðinn við bryggjuna og lamdi hann hvað eftir annað með grjóti, nánast grátandi af gleði.

Þetta var komið. Laxinn var kominn. Fallegur lax, sirka fimm pund. Ég festi hann á bögglaberann á hjólinu, eins og alla fallega fiska sem ég fékk, og hjólaði eins hratt og ég gat heim á leið. „Það er lax í matinn á Mýrarbraut 35,“ söng ég á leiðinni. Mér tókst það loksins. Ég kom heim og nánast sparkaði upp hurðinni. „Upp með potta og pönnur! Vill einhver laaaaax?“ gargaði ég. Út komu pabbi minn og vinur hans sem búsettur var í Danmörku á þeim tíma. Hann var í stuttri heimsókn á Íslandi og hefur alla tíð verið mikill veiðimaður, þá sér í lagi við veiðar á sjóbirtingi. Þessi vinur pabba lítur á bögglaberann og sagði að þetta væri virkilega fallegur sjóbirtingur. „Lax,“ sagði ég. „Sjóbirtingur,“ leiðrétti hann mig. Ég horfði tómum augum á glæsilegan sjóbirtinginn á bögglaberanum og sagði síðan lágt: „Er þetta ekki lax?“ Nei, þetta var sjóbirtingur og virkilega fallegur sjóbirtingur. Hann hafði veitt þá ansi marga og vissi hvað hann var að segja.

Eftir að ég fékk bílpróf fór ég að geta veitt víðar. Ég átti þó aldrei peninga til þess að kaupa alvöru veiðileyfi en reyndi mitt besta á alls konar svæðum sem möguleiki var að fá lax. Yfir sumartímann vann ég í rækjuvinnslu og oft á næturvöktum. Ég fór því oft eldsnemma á morgnana, þegar háflóð var, niður í fjöru sunnan megin við ós Blöndu að kasta. Einn slíkan morgun fæ ég loksins töku.

Þvílíkur fiskur. Hjólið stundi af sársauka og stöngin hneigði sig fyrir þeim einræðisherra sem tekið hafði Toby-spúninn. Á land kom fallegur sex til sjö punda lax. „Jæja, þetta er komið. Já já, þetta er loksins komið!“ Ég starði á fiskinn dauðann í fjörunni. Þetta var eins mikill lax og lax getur orðið. Ég þurfti ekkert að spyrja neinn að því. Mér tókst það eftir öll þessi ár. Ég kom laxinum fyrir í skottinu á bílnum og ætlaði að halda heim á leið. Það yrði þá eftir allt saman lax í matinn á Mýrarbraut 35. Ég ákvað þó að koma við í móttöku rækjuvinnslunnar og monta mig aðeins af þessum fallega laxi á leiðinni heim. Þar var á vaktinni á móti mér vanur veiðimaður, sá sem hafði kynnt mig fyrir þeim möguleika að veiða við hafnargarðinn og veiddi mikið með mér. Hann leit í skottið. „Þetta er nú fallegur sjóbirtingur,“ sagði hann. Ég skellti skottinu og brunaði heim.

Auðvitað var mamma ánægð með að ég skyldi koma heim með hvern sjóbirtinginn á fætur öðrum. Nýgengna með grátt og þykkt spiklag utan um kjötið. Varla hægt að finna betri matfisk. En ég var orðinn vonlaus um að fá minn fyrsta lax. Það höfðu allir í þorpinu fengið lax nema ég. Konan í kaupfélaginu hafði fengið lax í eina veiðitúrnum sínum. Bróðir minn hafði fengið lax. Gamli kallinn á bensínstöðinni hafði fengið lax og hann hataði að veiða. Hvað var að mér? Af hverju gat ég ekki fengið lax? Á þeim tíma var ekki auðvelt fyrir ungan dreng að þekkja í sundur lax og sjóbirting. Ég sá ekki mikið af sjóbirtingi yfir það heila. Ég gat ekki spurt internetið eða eitthvað álíka. Í dag koma reglulega inn á þessar helstu veiðisíður myndir af fiskum sem sendandi veit ekki hvort eru lax eða sjóbirtingur. Svo keppast menn við að greina sporðinn, munnbein og doppur. Ég vissi ekkert af þessu á þeim tíma. Mig langaði bara í lax.

Ég keypti mér svo veiðileyfi á svæði þrjú í Blöndu. Í þá daga kostaði leyfið um átta þúsund krónur dagana rétt fyrir aðalveiðitíma. Ég var þarna 2. júlí minnir mig. Ég bjóst ekki við miklu, enda þekkti ég svæðið lítið. Ég hafði veitt á neðri svæðunum en svæði þrjú hafði aldrei heillað mig. Fyrir virkjun var hægt að kaupa tilraunaveiðileyfi þar á lítið sem ekkert, ef ég man rétt. Þar reyndu veiðimenn fyrir sér með stórar Toby-plötur, sökkur og snöggar hliðarhreyfingar.

Ég var mættur þarna á slaginu klukkan sjö og hafði fengið einhverjar upplýsingar um hvert best væri að fara. Ég byrjaði að kasta í hyl við klettaþrengingu rétt neðan við brúna yfir svæði þrjú. Áin var á þessum tíma orðin nokkuð tær og falleg og ég hafði undir stóra túbu sem ég veit ekkert hvað hét og rétt ofar eina sökku. Sá sem dæmdi laxinn minn sjóbirting morguninn við móttöku rækjuvinnslunnar hafði bent mér á að gera þetta svona í þessum dýpri hyljum þar sem ég væri nú ekki orðinn mikill fluguveiðimaður.

Ólafur og Salka voru með útgáfuteiti s.l. föstudag. Þar áritaði höfundurinn bækur í gríð og erg. Mynd frá Sölku.

Að kasta túbunni út í fjörutíu og fimm gráður, leyfa straumnum að taka hana í sveig og draga síðan rólega inn. Ég vissi ekkert annað en að þetta gæti virkað. Eftir nokkur köst á þennan hátt er ég að draga rólega inn og sé lax koma undan klettasyllunni sem ég stóð á. Hann kom rólega á eftir túbunni og mér fannst ég sjá allt í hægri endursýningu. Ég byrjaði að hvetja hann lágt áfram, „taktu, taktu, plís taktu“. Og viti menn, hann gleypir túbuna, snýr sér við og stöngin kengbognar. Hjarta mitt fór á yfirsnúning. Þessum yrði ég að ná. Ég ákallaði alla mætti og talaði jafnvel upphátt við látinn afa minn í föðurætt sem gaf mér veiðidótið sitt á sínum tíma. „Plís, leyfðu mér að landa þér,“ grátbað ég laxinn. Eftir afar snögga baráttu tók ég verulega fast á honum og togaði hann upp á klöppina sem ég stóð á. Ég festi krumlurnar á honum svo fast að neglurnar nánast gengu inn í kjöt hans.

Fyrsti laxinn var staðreynd. Þarna lá hann dauður á bakkanum. Ég dansaði syngjandi eftir hreistursþaktri klöppinni. Hvað var að gerast? Mér tókst það loksins. Ég settist niður og starði á laxinn. Þetta var enginn stórlax, en þetta var lax. Þetta var lax, en enginn sjóbirtingur. Ég endaði svo á því að fá fimm laxa þennan dag. Nokkra afar væna. Þvílík uppbygging. Eftir allan þennan tíma, tókst mér að landa öllum þessum löxum. Ég hafði þá hitt á einhverja svakalegustu laxagöngu sem komið hafði í einu upp á svæði þrjú. Er ég talaði við veiðimenn sem veiddu á svæði tvö þennan dag sögðu þeir mér að þeir hefðu séð laxavöðurnar strauja framhjá hverjum hylnum á fætur öðrum á leið sinni upp eftir.“