Urriðajarlinn Jóhannes Sturlaugsson fiskifræðingur hjá Laxfiskum verður með sína árlegu „Urriðagöngu“ upp með Öxará á Þingvöllum næst komandi laugardag og hefst hátíðin klukkan 14.

Þetta er 14.árið í röð sem að Jóhannes kynnir Þingvallaurriðann fyrir gestum og gangandi með þessum hætti. Urriðagöngurnar hafa ævinlega verið vel sóttar og njóta vaxandi vinsælda, enda fær almenningur að sjá þennan risavaxna urriðaston í miklu návígi og er það ógleymanlegt. Þeir eru margir veiðimennirnir sem að láta ekki haustið líða án þess að skreppa á Þingvöll til að sjá höfðingjana í tilhugalífinu, enda aðstaðan til þess góð.

Sem fyrr segir þá hefst gangan klukkan 14 á laugardaginn og verður lagt upp frá bílastæðinu á gamla Valhallarsvæðinu. Jóhannes lætur þess getið að veðurspá fyrir Þingvelli sé mjög góð, léttskýjað og hægur vindur.