Dómhildur Árnadóttir með einn flottan úr vatninu í gær. Myndir Jóhann Rafnsson.

Veiðin á ION svæðunum á Þingvöllum fer vel af stað. Í ár var veiðitími Þingvallavatns færður fram um 15 daga og opnaði vatnið því 1. apríl.

Jóhann Rafnsson með einn af þeim stærri í gær.
ION svæðin henta einstaklega vel fyrir vorveiði, sérstaklega Þorsteinsvík þar sem yfirleitt er hægt að veiða hvernig sem aðstæður eru, veiðimenn geta síðan einnig veitt á tvær stangir í Ölfusvatnsárósnum sem er mun háðari tíðarfari og ekki alltaf hægt að veiða þar fyrir 15 apríl.
Björn Halldór Helgason með flottan urriða.
Við heyrðum í Jóhanni Hafnfjörð Rafnssyni, sem er umsjónarmaður ION svæðanna og hann sagði: „Núna kom okkur á óvart hvað fiskurinn er mættur snemma í ósinn og helmingur veiðinnar verið þar. Óvenju hátt hlutfall aflans var minni fiskur en við erum vanir í vorveiðinni, 35 – 50 cm. þó voru margir stórir, 70 til 80 cm. Líklega á stóri fiskurinn eftir að koma og reka ungviðið af svæðinu. En virkilega gaman að sjá hvað þeir voru vel haldnir og feitir. Vaxtahraði Þingvallaurriða veldur oft skemmtilegum útlitseinkennum eins og hlutfallslega litlum haus og búkurinn eins og amerískur fótbolti.
Annar stór, Jóhann og Nils Folmer, varla hægt að opna Þingvallavatn að hann sé ekkki nærstaddur!
Opnunardagurinn var mjög góður og fengust um 60 fiskar síðan mættum við leigutakar þann 2. og fengum álíka veiði. Þetta var skemmtilegur dagur með vinum og fjölskyldu. Allir fengu fiska og veðrið lék við okkur. Páskahretið varir vonandi stutt og vorið á næsta leiti. Verður virkilega spennandi að fylgjast með næstu árum á Þingvöllum,“ bætti Jóhann við.