Elliðaárnar; Veitt í SJávarfossi. Mynd Heimir Óskarsson.

Stangaveiðifélag Reykjavíkur hefur greint frá því á vef sínum að frá og með næsta sumri verði aðeins veitt á flugu í Elliðaánum og öllum fiski sleppt. Rökin eru álit vísindamanna og fleiri að hallað hafi mjög undan laxastofni Ána og ekki verði við slíkt unað lengur án aðgerða.

Í frétt á vef SVFR segir m.a.: „Niðurstöður vísindamannanna kalla á aðgerðir sem hafa það að markmiði að vernda laxastofn Elliðaánna enn frekar. Hrygningarstofn Elliðaánna hefur farið minnkandi og langoftast verið undir undir meðaltali frá því 1990. Engin teikn eru á lofti um að sú þróun breytist nema gripið sé til aðgerða. Elliðaárnar eru frjósamar ár og það þarf stóran hrygningarstofn til þess að nýta framleiðslugetu ánna á hverjum tíma. Minnkandi fjöldi gönguseiða og lækkandi endurheimtur þýða því minni göngu og minni veiði. Staðreyndin er einfaldlega sú að hrygningarstofninn hefur verið of lítill að hausti til að unnt hafi verið að byggja upp stofninn og snúa við þessari óheillaþróun.“

Síðan eru raktar nokkrar ástæður fyrir því að þessi þróun hafi verið fyrir hendi. Nærtækast er að ætla að sambúðin við vaxandi þéttbýli og mengun hafi ekki verið ánum holl.

Það er athyglisvert að geta skoðað þessa þróun með því að smella sér á angling.is og slá þar upp veiðum í Elliðánum. Þar má t.d. finna veiði í ánum frá sumrinu 2000. Þar sést t.d. að tólf af umræddum 19 sumrum hefur veiði verið á bilinu 830 til 1457 laxar og fjórum sinnum verið í fjögurra stafa tölu. Þá hafa sést mun lakari tölur heldur en síðasta sumar, t.d. svipuð tala (592) og nú 2019 (537) og þrjú næstu sumur, 2001 til 2003 veiddust á bilinu 414 til 478 laxar. 2014 var einnig mjög slakt eins og víðar um land, 457 laxar.