Sjóbirtingur
Glæsileg sprelllifandi 81 cm sjóbirtingshrygna...

VoV fór í sína árlegu mai-vísiteringu til Vestur Skaftafellssýslu. Við höfum farið ca viku af mai til að taka púlsinn, hvort að enn sé fiskur. Og það bregst aldrei, það er alltaf fiskur. Hér er þriðja frétt af þremur, vísitering í Tungulæk.

Tungulækur
78 cm birtingur veiddur í skilum Skaftár og Tungulækjar. Útlit gefur til kynna að um geldfisk sé að ræða þrátt fyrir stærð. Kynlaus kjaftur, spikfeitur og laust hreistur…. mynd gg.
Tungulækur
81 cm hrygna úr „Sigga“ í vatnaskilum Tungulækjar og Skaftár. Orðin björt, fer að fara og kemur aftur í haust alveg svakaleg. Mynd gg.

Við gerðum tvö 3 klst stopp í Tungulæk, þokkalegt veðrið á fimmtudaginn en slagur við náttúruöflin í gær. Þarna lönduðum við 14 fiskum og misstum nokkra. Það var sem sagt ekkert geldfiskamok og þeir geldu sem við settum í voru stórir, 55 til ríflega 60 cm. Við lönduðum meira að segja einum 78 cm sem okkur grunar að hafi verið geldari.

Tungulækur
72 cm fiski landað í Gussa í Tungulæk. Mynd gg.

Höfum heyrt um 80 cm geldfiska, þetta er alls ekki algengt, en getur gerst. Umræddur fiskur sést á mynd í þessum pistli og þar má sjá, kynlausan kjaft, mjög gott holdafar og bjarta áferð. Hreistur var meira að segja laust sem að sumir tengja við nýlega göngu úr sjó.

Tungulækur
Kuldalegt við Tungulæk. Átti eftir að versna. Mynd Jón Eyfjörð.

Vorveiðin í Tungulæk hefur verið frábær. Því miður vantar okkur tölu en hann er alltaf það sem hann er, gjöfulasta áin á svæðinu. Ef marka má okkar reynslu nú, þá er hrygningarfiskurinn farinn að færa sig neðar. Þeir sem við lönduðum  komu annað hvort úr skilunum við Skaftá eða í veiðistaðnum Gussa, sem er neðarlega, 200 metra ofan við Opið, þar sem sturtast út í Skaftá. Enn eru tvær góðar vikur eftir að vertíð, ekki bara í Tungulæk, í öllum ánum á svæðinu.