Það þarf ekki að leita í sðurenda Þingvallavatns til að rekast á ísaldartröllin, Cezary Fijakowski verslar sér bara Veiðikortið og skóflar þeim á land í Þjóðgarðinum.

Á myndinni má sjá Cezary hampa 88 cm bolta sem hann landaði í gær, en það var urriði númer 22 á þessu vori. „Þessi kom á svarta Piketerror flugu. Hlutirnir eru í lagi,“ sagði Cezary í skeyti til VoV í morgun. Piketerror flugurnar er hægt að gúggla, þær eru stórar og groddalegar en svínvirka í stóru ísaldarurriðana.
Þjóðgarðssvæðið í Þingvallavatni leynir hressilega á sér hvað viðvíkur stóru urriðunum, en það þarf ástundun til að læra inná þá. Jafnan er talað um fiskauðgi frægu svæðanna í sunnanverðu vatninu, en menn skyldu ekki gleyma því að Þjóðgarðssvæðið liggur í beinu framhaldi af ós Öxarár þar sem megin þorri Þingvallaurriðans hrygnir. Cezary stundar svæðið af kappi, í fyrra landaði hann mörgum tugum fiska sem voru allt að áætluð tuttugu pund.
Flugur þessar eru eins og veiðimaðurinn, af pólskum uppruna og voru upphaflega ætlaðar til veiða á vatnageddum, sem eru ekki minni rándýr en ísaldarurriðarnir okkar. Flugurnar má skoða betur hjá Maríu og Óla í Veiðihorninu.