Sami laxinn, enginn vafi á því! Mynd Óskar Páll Sveinsson.

Í ljós hefur komið að stóru 109 cm tröllin í Hofsá voru einn og sami laxinn! Þetta sannreyndi Óskar Páll Sveinsson eftir að Friðrik Þ Stefánsson tjáði honum að hann teldi að mögulega væri um sama laxinn að ræða.

VoV greindi frá því í byrjun ágúst að Guðlaugur Frímannsson hefði landað 109 cm hæng í Skógarhvammshyl og í gær greindum við frá því að Friðrik Þ Stefánsson hefði landað öðrum jafn löngum í Wilson Run. Óskar Páll Sveinsson greindi frá því í gær að Friðrik hefði haft á orði við sig að mögulega hefði verið  um sama laxinn að ræða. Hann bar þá því saman og útkomuna má sjá hér. Vart verður um það deilt að um sama laxinn er að ræða. Verður nú fróðlegt að fylgjast með því hvort að hængur þessi láti glepjast í þriðja skiptið!