Allskonar fréttir héðan og þaðan

Hörkuveiði hefur verið í Laxá í Kjós síðustu daga og göngur líflegar. Mynd Stefán Sigurðsson.

Það verður fróðlegt að sjá hvaða tölur angling.is dúkkar upp með á miðvikudagskvöld og fram á fimmtudaginn. Eftir því sem komist verður næst er enn fínasta veiði víðast hvar á Suðurlandi, miðlungs til slakt norðanlands en miklu  betra er austar dregur eins og í fyrra. En Suðvestur- og Vesturlandið er meiri ráðgáta.

Tölur tala alltaf sínu máli og mörgum þykir ekki ríflega fimmtíu laxa afli í einu holli í Norðurá á þessum tímapunkti sumars ýkja merkilegt, en bent er þó á að mikið af laxi hafi verið í Straumunum, þar sem Norðurá kemur út í Hvítá. Rigningarnar og nýlega afstaðið skítviðri hefur þó hleypt sums staðar lífi í hlutina, t.d. eru komnir á annað hundruð laxar úr Laxá í Kjós síðan á fimmtudag og að sögn mikið af laxi að ganga, mikið af því smálax, en stórir í bland. Þá er sjóbirtingur, margir stórir, farinn að láta til sín taka í vaxandi mæli og það sama má segja um Brynjudalsá og Laxá í Leirársveit.

Fyrir austan eru Vopnafjarðarárnar Selá og Hofsá á fínasta róli og í Jöklu hefur verið besta byrjun sem munað er eftir. Um helgina var áin komin í þriggja stafa tölu. Þá hefur verið líflegt í hinni Selánni fyrir austan, í Álftafirði. Lax kominn þar um alla á og dagsveiði á tvær stangir verið að ná tíu löxum.