Blanda líka komin á yfirfall

Blanda
Blanda í "eðlilegum gír", mynd tekin í opnun fyrir nokkrum árum, líklega af Höskuldi Birki Erlingssyni.

Sjaldan er ein báran stök. Fyrst að Jökla fór á yfirfall  þurfti Blanda að gera það líka. Blanda er sem sagt kafibrúnt forað núna og ekki líklegt að þar veiðist mikið á næstunni. Hins vegar hefur Svartá verið nokkuð lífleg. Staðan í Blöndu var þó ekki mikið skrárri þegar hún fór á yfirfall heldur en þegar sami skellur kom í fyrra. Það er niðursveifla í Blöndu, varla hægt að segja annað.

VoV ók yfir Blöndu í dag eftir nokkura daga dvöl í Vopnafirði. Vatnavextirnir og liturinn á Blöndu hafa ekkert með hita að gera, þetta er yfirfall. Síðast liðinn miðvikudag voru komnir 407 laxar á land skv tölum angling.is. Alls veiddust 475 laxar í fyrra, þannig að þetta er ekki mikið að skána. Svartá hefur hins vegar notið góðs af harðari verndarreglum í Blöndu og þar eru komnir yfir 100 laxar á land. Þar er komið talsvert af laxi og áin gæti klifið hátt í 200 laxa áður en yfir lýkur ef vel tekst til og væri það eitt af frekar fáum ljósum í myrkri þessa sumars, því Svartá var eiginlega orðin ónýt og varla að gefa nema fáa tugi laxa á meðan stórfellt laxadráp viðgekkst á neðsta svæði Blöndu um árabil.