Sunnudalsá
Glímt við lax í Sunnudalsá.

Alltaf breytist eitthvað í veiðinni frá ári til árs. T.d. var eigi alls fyrir löngu greint frá breytingum sem hafa verið ákveðnar austur á Vopnafirði á komandi sumri. Þær breytingar teljast allar til tíðinda og varða Sunnudalsá og silungasvæði Hofsár.

Strengur hefur séð um rekstur Sunnudalsár síðustu sumur og tengt hana við efri hluta silungasvæði Hofsár. Það þótti vinsælt því einn frægasti sjóbleikjuveiðistaður landsins er einmitt á því svæði, Fellshylur. Þá er Sunnan glettilega góð laxveiðiá og þetta kombó mæltist vel fyrir og seldist vel.

En breytingin er sú, að Sunnudalsá hefur verið tekin af almennum markaði. Landeigendur og leigutakar þar ætla að rækta ána upp og gefa henni frið um sinn. Þeir telja að hún geti afkastað stærri laxastofni og þó að öllum lönduðum laxi úr henni hafi verið sleppt, telja þeir heppilegra að ekki verði veitt í henni yfir höfuð.

Efra silungasvæðið verður hins vegar fellt saman við það neðra sem selt hefur verið í frá Syðri Vík til fjölda ára. Strengur heldur utan um þetta nýja dæmi og verður veiðiaðstaða veiðimanna í Syðri Vík eins og fyrrum.