Menn veiða frítt í Frostastaðavatni í sumar!

Falleg bleikja kommin í háfinn, en í Frostastaðavatni þarf að grysja. Mynd -gg.

Fréttin er ekki beinlínis ný, en óhætt að minna á hana. Veiðimenn geta drifið sig inn á Landmannaafrétt og veitt fyrir núll krónur í Frostatsðavatni. Þar er grysjunarátak í gangi og er þetta forkunnarfagra vatn sneisafullt af bleikju. Mikið af henni er smá, en hún þykir eigi að síður fínasti matfiskur.

Á vef Veiðivatna, www.veidivotn.is segir: „Gjaldfrjáls veiði verður í Frostastaðavatn sumarið 2019. Stjórn Veiðifélags Landmannaafréttar hefur ákveðið að næstkomandi sumar verði gert átak í grisjun á bleikjustofninum í Frostastaðavatni. Veiðin verður gjaldfrjáls og verður bæði heimilt að veiða á stöng og í net. Einungis verður farið fram á góða umgengni við vatnið sem og að skrá fjölda fiska, tegundir, þyngd afla, fjölda neta, möskvastærð og hve lengi þau liggja. Skráning er afar mikilvæg og veiðiskýrslum á að skila að lokinni veiðiferð í söfnunarkassa við Frostastaðavatn (vegamót) eða í Landmannahelli. Best er að nota 30 mm möskva á legg eða smærri. Veiðimenn verða sjálfir að útvega sér veiðarfæri og bát. Veiðitíminn er frá 18. júní til 15. september. Veiðimönnum er bent á gistiaðstöðu í Landmannahelli og þar eru líka seld veiðileyfi í önnur vötn sunnan Tungnaár.“

Lesa má nánar um þetta á fréttalista vefsíðunnar www.veidivotn.is