Tungufljót, Syðri Hólmi
Sá kyngimagnaði veiðistaður Syðri Hólmi í Tungufljóti. Þarna sér út í skilin við Ása Eldvatn. Mynd Heimir Óskarsson.

Menn eru að gera hörku veiðitúra í sjóbirtingnum fyrir austan, góðar tölur og stórir fiskar. Sú kuldatíð sem lagðist yfir um síðustu mánaðamót mun e.t.v. framlengja vordvöl birtingsins og bjóða upp á lengri vertíð…

Sem dæmi um góðan veiðitúr má benda á holl sem var í Tungufljóti um síðustu helgi. Það var svalt og erfitt, en menn fundu fiskinn í Syðri Hólma og á Flögubökkum. 33 var landað og kom stærð þeirra skemmtilega á óvart því allt var þetta fiskur á bilinu 75 til 86 sentimetrar, menn fundu því öldrunarheimilið á svæðinu. Fiskar af þeirri stærð gamlir og þroskaðir.

Alls staðar þar sem stungið er niður fæti á þessum slóðum er nóg af fiski og hefði tíðin verið ögn hlýrri og geðslegri hefðu veiðitölur eflaust verið orðnar verulega hrikalegar, enda er augljós uppsveifla í gangi hjá sjóbirtingi á þessum slóðum. Mikið af gömlum og stórum fiski og meira af geldfiski heldur en menn muna í langan tíma.

Kamil Barwiak, Helluvatn
Kamil Barwiak með 70 sentimetra urriða úr Helluvatni(Elliðavatni) nú um helgina. Mynd Róbert Nowak

Það hefur verið tiltölulega rólegt í vatnaveiðinni. Veturinn var svo hlýr að menn bjuggust við vötnunum snemma í gang en síðan gekk apríl í garð með kulda. Þingvallavatn skar sig þó fljótt úr þar sem Þorsteinsvíkin er með hlýrra vatn sökum jarðhita og Ölfusvatnsvík nýtur góðs af ánni sem rennur útí. Annars staðar hefur veiði á staðbundnum silungi verið svona kropp. Þar sem er urriði þá fá menn nokkra, m.a. í Elliðavatni, en þar fékkst 70 sentimetra dólgur nýverið. Þá hafa menn verið að landa fallegum fiskum í Minnivallalæk og Galtalæk. Einnig í Brúará og Hólaá. Bleikjan er hins vegar lítið farin að tjá sig um gang mála hjá sér.

Nú styttist í mai og það er hlýrra veður í kortunum. Ætli þetta fari ekki þá að hrökkva betur í gang.