
Eins og við greindum frá þá byrjaði Eystri Rangá mjög vel um helgina og hefur Einar Lúðvíksson, umsjónarmaður árinnar, nú greint okkur frá því að ellefu laxar hafi veiðst á tveimur fyrstu dögunum.
Einar sagði: „Fyrstu 2 dagarnir gáfu 11 laxa og var lax að fást frá svæði 1 til svæðis 9. Þetta er fyrsta árið sem að stórlax úr stóru sleppingunni frá árinu 2017 kemur inn í veiði en þá var sleppinginn stækkuð úr 200 þúsund seiðum í 400 þúsund. Í ár var sleppt um 550 þúsund seiðum og stefnt er að stækka sleppinguna í 800 þúsund seiði á næstu árum.“ Það var og, gangi heimtur vel má búast við mikilli stórlaxagengd.