Nokkrar líflegar opnanir!

Sá stærsti úr Grímsá í morgun, 90 cm bolti úr Strengjunum. Myndin er frá FB síðu Hreggnasa.

Grímsá og Langá opnuðu í morgun og Skjálfandafljót í gærmorgun. Alls staðar komu laxar á land, en menn voru samt miskátir með afraksturinn.

Barist við boltalax í Strengjunum í morgun.

Í skeyti sem barst frá Hreggnasa, leigutaka Grímsár sagði að stangirnar fjórar sem opnuðu Grímsá hefðu landað 9 löxum og hefðu það allt verið tveggja ára laxar af góðri stærð, stærst 90 cm sem veiddist í Strengjunum. Annars hefði löxum verið landað á öllum veiðisvæðum og nefndir í því sambandi hyljir á borð við Efstahyl, Klöpp, Strengina og Langadrátt. Fjórir laxar töpuðust í viðbót, allir í löndun og voru þeir atburðir í Gullberastaðastreng, Klöpp, Strengjunum og Langadrætti. Allir laxarnir veiddust á smáar „hitsaðar“ flugur. Grímsá er vatnslítil eins og aðrar ár á Vesturlandi, en lööngum hefur það verið sagt að áin haldi sínu betur en margar aðrar þegar þurrkar steðja að. Sama er sagt um Flóku, sem rennur um næsta dal.

Jogvan Hansen með hrygnu úr Glanna í Langá í morgun, fiskurinn mældist 90 cm skv frásögn á vef SVFR.

Sett var í sex laxa á fyrstu vakt í Langá í morgun, en aðeins tveir þeirra náðust á land, annar í Holunni, hinn í Glanna. Laxarnir fjórir sem sluppu voru allir í Strengjunum. Gústaf Vífilsson sem meðal veiðimanna sem eru að opna ána sagði að menn hefðu í ljósi aðstæðna kannski ekki gert sér rífandi vonir, en þar sem þetta var fyrsta vakt og fiskur fyrir all nokkru farinn að ganga í ána hefði hann viljað sjá kannski 5-6. „En svona er þetta,“ sagði Gústaf. Þrátt fyrir vatnsmiðlun í Langavatni þá er Langá orðin æði ræfilsleg og sagði Gústaf að eftir því hefði verið tekið að laxinn væri búinn að gera sig heimakominn á stöðum sem að öllu jöfnu detta ekki inn fyrr en í ágúst.

Sveinn Aðalgeirsson með 90 cm hæng sem tók flugu á Barnafellsbreiðu í Skjálfandafljóti í gær. Sá stærsti í flottri opnun. Myndina fengum við af FB síðu IO Veiðileyfa.

Nefndi hann sem dæmi að laxinn sem veiddist í Glanna, kom úr hylnum, en framan af sumri veiðist laxar í Glanna á brotinu fyrir ofan hylinn. Þar getur enginn lax dokað við núna útaf vatnsleysinu.

Þá var Skjálfandafljót opnað í gærmorgun og óhætt að segja að vel hafi farið af stað. Sex laxar komu á land og fleiri sluppu. Komu laxar m.a. af „Austurbakka“ og úr Barnafelli.