Erlingur Hannesson með 87 cm sjóbirtingshæng. Þann stærsta í opnunarhollinu. Myndirnar eru báðar af FB síðu Eldvatns

Veislan í Eldvatni sem hófst með ellefu birtinga skoti á fyrstu vakt hélt bara áfram og hollið sem opnaði ána var í stórfiskadrætti alla dagana þrjá. Ein flottasta opnun í manna minnum.

88 cm lax sem kom á land úr Eldvatni í opnuninni.

„Flott byrjun, engin smá stærð á fiskunum. Fyrsta hausthollið lauk veiðum í dag (sd) og enduðu þeir með 42 sjóbirtinga og 2 laxa eftir 3 daga veiði. Stærð fiskana var mjög góð en helmingur aflans var yfir 70cm að lengd. Stærstu sjóbirtingarnir voru 85 ,85 og 87 cm og á síðustu vaktinni kom 88cm lax á land,“ sagði Jón Hrafn Karlsson einn leigutaka árinnar í skeyti til okkar í gærkvöldi.

Athygli vekur óneitanlega að stóri birtingurinn, 87 cm, sem Erlingur Hannesson landaði í Hvannakeldu er langt frá því að vera nýgenginn. Þar er ekkert nýtt að birtingurinn gangi fyrr í Eldvatn en aðrar ár á þessum slóðum, þ.e.a.s. að einhverju marki. Það gæti stafað af því að Eldvatn rennur beint í Atlantshaf á meðan flestar hinna þekktu sjóbirtingsáa í Vestur Skaftafellssýslu renna í jökulfljót og birtingurinn hefur þar tilhneigingu til að fela sig í vatnskilunum og skila sér í bergvatnið síðar. Að því sögðu þá hafa birtingar veiðst víða í sýslunni að undanförnu.