Uppbygging og ræktun í Vatnsá og Heiðarvatni

Ásgeir Arnar Ásgeirsson með ríflega 80 cm nýgenginn sjóbirting sem hann veiddi á svæðinu í fyrra.

Vatnsá og Heiðarvatn fljúga oft undir radarinn þar sem laxveiði í ánni hefst mjög seint miðað við það sem gengur og gerist. Líklega engin jafn mikil síðsumarsá og Vatnsá. En vatnið vaknar fyrr og er vinsælt. Nú hefur mikil ræktun verið þar í gangi síðustu ár og meira er á döfinni.

Það er líklega kunnara en frá þurfi að segja að svæðið er í eigu Svissneska auðmannsins Rudy Lamprecht og hefur hann átt svæðið um árabil. Og hefur gert eitt og annað til að auka fiskgengd í ána og vatnið. Vatnið er afar gjöfult silungsvatn með fallegri bleikju og urriða. Enn fremur gengur sjóbirtingur í vatnið og einnig nokkuð af laxi.

Haustlax úr Vatnsá – Mynd

Vatnið stendur fullkomlega fyrir sínu, en áin er kúnstug og til að halda henni við þarf að huga að ýmsu. Það er t.d. þannig að besti veiðistaðurinn til fjölda ára er Frúarhylur, beint niður af veiðihúsinu. Tveggja mínútna gangur. Þar hefur um árabil veiðst mest af laxi, en hvorki þar né ofar eru hæfileg hrygningarsæði fyrir lax. Ásgeir Arnar Ásmundsson, umsjónarmaður eigandans, segist hafa gengið með ánni þar fyrir ofan seint að hausti og séð aðeins stöku laxa. Lítið af urriða þó að mikið geti verið af honum yfir sumarið. Þar sé sandur í botni. Ásgeir álítur að laxinn í Frúarhyl tengist seiðatjörn sem er rétt þar fyrir ofan. Það sjáist af því að lax leiti í tjörnina á haustin.

„Við prófuðum að setja möl á breiðuna fyrir ofan Frúarhyl. Höfðum tekið eftir því að laxar voru að grafa holur nánast í harðalandi við báða bakka rétt ofan við hylinn. Við vitum ekki enn hvað það hefur gert og það þarf að fara varlega með allt svoleiðis, takmarkað hvað má gera og hvað ekki,“ sagði Ásgeir.

Ásdís Guðmundsdóttir, Frúarhylur, Vatnsá
Ásdís Guðmundsdóttir með 83 cm hrygnu sem tók straumfluguna Carnival númer 8 í Frúarhylnum.

Samstarf Ásgeirs og Rudy bar að með sérstökum hætti. Rudy var búinn að kaupa jarðir í dalnum og vantaði eldisstöð fyrir seiðaeldi. Ásgeir var þá með Skógá og var í sömu þönkum og báðir buðu í eldisstöðina Fellsmúla við Minnivallalæk. Ásgeir bauð betur, en Rudy sótti um leið í samstarf fyrir sína starfsemi og síðan hafa þeir verið óaðskiljanlegir.

Þetta var árið 2004 og á árunum 2004 til 2007 var svæðið lokað. SVFK hafði um árabil haft aðstöðu við vatnið,parhús sem alltaf var uppselt í. Félaginu var gert að fara og endaði klúbburinn við Vesturhóp.

Á þessum árum var mikið sett af seiðum í ána, gönguseiði, bæði laxa og sjóbirtinga. Um tíma var áin eins og ýktasta hafbeitará, smekkfull af laxi og skilandi fjögurra stafa laxveiðitölum eftir að hún var opnuð aftur. Eftir fá ár var horfið frá því, enda kerfið alls ekki að standa undir slíku. Í dag er hófleig slepping laxaseiða úr einni tjörn, rétt ofan Frúarhyls, en Ásgeir og Rudy hafa fræðst mikið um ána og vatnið í gegn um árin.

„Það er frekar magnað, að á sama tíma og lítið klak er frá Frúarhyl og upp í vatn er mikið klak neðst í Vatnsánni. Við höfum séð það, mikið af seiðum og ekki bara af einum árgangi. Hins vegar er áin þar afar opin fyrir skakkaföllum náttúrunnar, Flóð þeyta henni um allt á haustin, á veturna og á vorin. Þetta fer allt í rúst. En þarna er botn til að hrygna í og þess vegna höfum við verið að setja þarna niður grjót til að verja ána og seiðin. Tíminn leiðir í ljós hvernig það gengur, en við bindum vonir við að þetta geti aukið laxgengd í ána og styrkt stofninn,“ segir Ásgeir.

Vatnsá er fallegt vatnsfall. Mynd -gg.

Og það á að fylgjast betur með gangi mála í ánni. Teljari er tilbúinn, aðeins eftir að setja hann niður. „Við veltum því lengi fyrir okkur og nú er komin niðurstaða eftir ráðgjöf þeirra feðga Vífils Oddssonar og Gústafs Vífilssonar. Engir á Íslandi hafa meiri reynslu en þeir í fiskvegagerð. Við verðum teljarann við Fossinn neðan við Hornið, neðan við veiðihúsið. Við þurfuð samt að fara í smá umbætur þar vegna þess að Skakká kemur þar út í Vatnsá og getur verið óhemja í flóðum. Þurfum að tryggja að teljarinn sópist ekki bara burt í næsta flóði. En þarna munum við fá dýrmætar upplýsingar um gengd laxa og sjóbirtinga upp og niður ána,“ bætti Ásgeir við.

Við þetta má bæta, að vorið 2020 var byrjað að eiga við gamla veiðihúsið. Bæta við það og lagfæra. Það var orðið gamalt og frekar lúið þó að flestum liði þar vel. Nú er það orðið að mun magnaðri vistarveru og enn stendur til að bæta við.