88 cm tröll sem man tímana tvenna. Sjá sporðinn sem er búinn að róta upp möl aftur og aftur. Flottur gaur.

Ætlunin er að taka fyrir sem flestar af lax- og sjóbirtingsám landsins og gera vertíðina í þeim upp með ábendingum og upplýsingum frá þeim sem vit hafa þar á, leigutakanum, umsjónarmönnum, veiðivörðum eða öðrum til þess hæfum einstaklingum. Við byrjum á Eldvatni í Meðallandi, með upplýsingum frá Jóni Hrafni Karlssyni leigutaka árinnar.

„Eldvatnið endaði í 447 sjóbirtingum , meðalstærð var 68cm en það eru um 7-8 punda fiskar. Við höfum ekki áður séð svona mikið af stórum fiski eins og þetta árið, en geldfiskurinn hefur líka ekki látið sjá sig af neinu viti , smá skot í vor en annars hefur það verið undantekning að fá fisk undir 60cm

Einn sem bíður eftir að losna úr háfnum. Myndir eru frá Jóni Hrafni Karlssyni.

Sex sjóbirtingar komu á land 90-96cm langir , allir veiddust þeir í ágúst og september , vel haldnir boltar. Annars skilaði árið líka 28 staðbundnum urriðum , virkilega vænum mörgum hverjum, meðalstærð 59cm eða ca 5pund. 14 laxar veiddust einnig og 8 bleikjur. Haustveiðin var óvenjuleg þetta árið, byrjaði með krafti snemma í ágúst en síðan dró úr henni og reyndist hún heilt yfir frekar róleg miðað við fyrri ár, þó það kæmu góð skot inn á milli,“ sagði Jón Hrafn. Sem sagt, á heilina góð vertíð en köflótt. VoV hefur þó áður viðrað dálitluar áhyggjur af fáum geldfiskum því í aðdraganda síðustu frábæru ára á sjóbirtingsslóðum, var afar mikið af geldfiski á sveimi. Þess ber þó að geta að hann hefur ekkert fast göngumynstur og virðist oft koma eftir veiðitíma, sem sést best á því að oft er allt morandi af honum á vorin  þó að lítið hafi sést haustið á undan.