Sæsteinsuga, steinsuga, steinsugubit
Lifandi sæsteinsuga, komin á land í Sandgerðishöfn. Myndin er fengin af vef Sandgerðisbæjar og var tekin 2008.

Hver man ekki eftir endalausum fréttum af sæsteinssugubitum á sjóbirtingum á Suðurlandi fyrir nokkrum árum? Gróin sár, blæðandi opin sár, allt að 3-4 á einstökum fiskum. Það var orðið svo slæmt að leitað var eftir hvort að kvikindin væru farin að hrygna í íslenskum ám. Komin til að vera. En síðustu 2-3 árin hefur þetta algerlega gleymst og lítið ber á bitum. Lítið ef nokkuð.

VoV leitaði til nokkurra aðila sem eru gjörkunnugir sjóbirtingsveiðum í ánum í Vestur Skaftafellssýslu, þar sem plágan var sem verst, og spurði þá út í tilfinningu þeirra miðað við þær fregnir sem þeim berast og hafa borist í seinni tíð.

Sæsteinsuga, steinsuga, steinsugubit
Eina tilvikið svo vitað sé, að sasteinsuga hafi komið hér fram í fersku vatni. Lax veiddur í Ytri Rangá 2009 var með þetta höfuðskraut, en yfirleitt sleppir sugan takinu þegar fiskarnir ganga í ferskt vatn.

Arnar Óskarsson, ritari SVFK, sem hefur Geirlandsá á leigu sagði eftirfarandi, en þar voru bit tíð og áberandi um nokkurra ára skeið: „Þessi fyrirspurn þín, já það er rétt hjá, þetta er nánast alveg horfið. Það var einn fiskur sem ég man eftir hjá okkur í opnun og við tókum sérstaklega eftir því. Okkur var einmitt tíðrætt um hvað það væri langt síðan maður hefði séð þetta.“ Einn af 94, þar er lítið miðað við það sem áður gekk á.

Kristján Páll Rafnsson hjá Fish Partner er að vísu ný tekinn við ánni, en hann var að veiða í opnun árinnar. Hann og félagi hans lönduðu 63 fiskum og þetta sagði þetta um þá stöðu: „Það voru engin sár á þeim fiskum sem við veiddum, það er mjög jákvætt.“ Svo mörg voru þau orð og alveg í takt við það sem VoV hefur heyrt frá Tungufljóti. Í þessum tveimur ám erum við að tala um upplýsingar um 157 sjóbirtinga. Eitt bit. Fyrir nokkrum árum hefðu þau hlaupið á nokkrum tugum.

Jón Hrafn Karlsson leigutaki Eldvatns sagði: „Það virðist alveg vera búið.“ Veiðimenn við Tunglæk hin seinni ár hafa sömu sögu að segja. Sæsteinssugan er viðbjóðslegt kvikindi, eins og áll í laginu með hringlaga tenntan kjaft sem dýrið notar til að bíta sig fast við birtinginn (eða laxinn). Það gerist í sjónum og kvikindið hangir á hýsli sínum þangað til birtingurinn gengur í ferskt vat, þá sleppir sugan takinu og leitar að hrygningarstöðvum. Þær fundust aldrei hér á landi þrátt fyrir einhverja leit af hálfu fiskifræðinga Hafró. Menn óttuðust að hún væri að detta inn í skilyrði til að hasla sér völl hér á landi, en sem nýbúi hefur tegundin víða gert ofboslegan skaða á fiskistofnum sem .þekktu hana ekki. En svo virðist sem að hún hafi fjarað út með sókn sína hér á landi, sjö, níu, þrettán.