Laxar. Mynd Einar Falur.

Lax er nú hvergi veiddur nema í fjórum ám eftir því sem við komumst næst, Rangánum tveimur, Affalli í Landeyjum og Þverá í Fljótshlíð. Mjög hefur hægst um á þessum slóðum, en tölur í það heila mjög góðar. Þær skiptast á um að skjótast fram úr hvor annarri Rangárnar tvær, en sú Eystri var efst með litlum mun s.l. miðvikudagskvöld.

Eystri var þá með 3929 laxa eftir 89 laxa viku sem er reyndar bara fínt miðað við árstíma. Aðeins 19 löxum á eftir, með 3910 laxa kom Ytri áin eftir62 laxa viku. Eystri var þá með 1786 löxum meira en alla síðustu vertíð þannig að menn eru væntanlega brosandi allan hringinn á þeim bæ. Þó að Ytri hafi gefið vel í sumar er brosið líklega ekki eins breytt því að á miðvikudagskvöldi var áin með 3541 laxi minna en alla síðustu vertíð.

Veiðin í Affalli hefur verið stórgóð í sumar og haust, síðasta vikan þar gaf 21 lax og var áin þá komin í 860 laxa, eða 667 löxum meira ení fyrra! Þverá hefur líka verið á fínu róli var komin með 470 laxa s.l. miðvikudag, sem er svipað og heildarveiðin í fyrra, þó 22 löxum meira.