Sjóbirtingsveiðin í Vestur Skaftafellssýslu fer senn að ljúka, síðustu árnar loka 20.október. Stóran hluta af haustinu hafa skilyrði verið erfið sem er synd því mikið er af fiski. En svo koma glufur í veður og þá veiðist vel.
Við fréttum t.d. af hópi Suðurnesjamanna sem voru í Fitjaflóði í vikunni. Ekki vitum við hvort þeir veiddu til hádegis í dag, en í gær var hópurinn kominn með yfir 20 birtinga og voru all nokkrir þeirra vel vænir.Tölur vantar okkur, en fréttir af skotum víða hafa borist, t.d. að holl í Tungulæk fyrir skemmstu var með tæplega þrjátíu fiska, upp í 90 cm. Þá heyrðum við af veiðimanni sem var að berjast við elementin í Tungufljóti, en var staddur við Syðri Hólma þegar lægði nærri ljósaskiptunum. Fór þá Fljótið allt að sjóða og fiskar að koma upp, ýmist allir uppúr eða bara bökin, og fiskur fór þá líka að taka. Setti kappinn í níu og landaði þar af fimm. Allt stórum fiskum. En þá fór að blása aftur og dimma hratt. Datt þá botninn allur úr þessu.