Ytri Rangá, Einar Falur
Á þessari frábæru mynd Einars Fals Ingólfssonar má sjá fjöruga glímu við lax í Ytri Rangá.

Enn er veitt í fjórum ám sem byggja á sleppingu gönguseiða, en veiði í þeim lýkur næst komandi föstudag, 20.október, líkt og flestar af sjóbirtingsánum í Vestur Skaftafellssýslu. Laxveiðin er aðeins yfir langtíma meðalveiði, sjóbirtingsveiðin hefur verið feiknagóð.

Fiskifræðingarnir á Hafró hafa látið frá sér bráðabirgðatölur yfir laxveiðina og kemur þar fram að um það bil 46.500 laxar hafi veiðst, en meðaltal áranna 1974 til 2016 er 41.880 laxar. Þetta er 10 prósent yfir þessu langtíma meðaltali. Hins vegar er meðaltals fall í veiðinni miðað við síðasta sumar um 13 prósent og telur 6.800 laxa. Fallið er mishátt eftir landshlutum, þannig eru flestar ár á Suðuvestan- og Vestanverðu landinu, að og með Langá, með meiri veiði en í fyrra en þar fyrir utan eru árnar með mismiklu minni veiði en í fyrra. Stórlax var langt frá því að vera jafn sterkur og í fyrra og víða skilaði smálaxinn sér seint og illa. Á Norðausturlandi eru dæmi um ríflega 30 prósent minni veiði en í fyrra. Þá segja Hafrómenn að ef engum laxi væri sleppt og lax veiddur í „hafbeitarám“ væri dreginn frá væri veiðin um 37.000 laxar sem væri nálægt meðalveiði á villtum laxi.

En talandi um árnar fjórar sem enn eru í gangi. Ólíkt hafast þær að, Ytri Rangá hefur verið að skila ágætisveiði á meðan hinar þrjár, Eystri Rangá, Þverá og Affall hafa hægt verulega á sér. Þó verður að segja, að veiðitalan í Þverá er líklega metveiði, a.m.k. finnst ekki hærri veiðitala í ánni allar götur aftur til ársins 2010.

S.l. miðvikudag þegar angling.is birti síðast vikutölur mátti sjá að Ytri var komin í 7292 laxa eftir 194 laxa viku. Vikurnar tvær á undan gáfu 263 og 309 laxa, þannig að enn er eftir einhverju að slægjast. Á sama tíma er rólegt í Eystri Rangá og síðustu þrjár vikurnar þar að gefa 47, 37 og 11 laxa. Á miðvikudaginn var áin komin með 2125 laxa. Þverá í Fljótshlíð var komin í 447 laxa og síðustu vikurnar þar með 11, 30 og 6 laxa. Þetta er besta laxveiði í Þverá síðan 2010 skv angling.is og sennilega er þetta bara mettala almenn séð, því Þverá hefur ekki verið laxveiðiá í svo ýkja mörg ár. Þá að Affalli, slöku sumri þar senn lokið og þrjár síðustu vikurnar þar gefið 3, 6 og 3 laxa. Heildartalan  192 laxar.

Ekki yrðum við hissa þó að einhverjar metveiðitölur birtust af sjóbirtingsslóðum. Fullyrðum ekkert um það að sinni, en bendum á að ótrúelagr fréttir hafa borist í haust frá bæði Eldvatni og Geirlandsá, eftir afar líflega vorveiði í báðum.Þá fylgjusmt við líka grannt með Tungulæk og Tungufljóti sem báðar hafa gefið feiknavel í haust.