Elías Pétur, Deildará
Elías Pétur Viðfjörð Þórarinsson með fyrsta laxinn úr Deildará

Það eru alltaf einhverjar laxveiðiár sem fara undir radarinn hjá okkur þegar við reynum að eltast við opnanir. Þær eru ekki allar jafn frægar þó að þær séu kannski alveg jafn góðar og hinar, allavega þegar meðalveiði er reiknuð út. En við ætlum að tína eitt og annað til hérna sem við höfum ekki sett fram áður.

Ari Hermóður, Haukadalsá
Ari Hermóður Jafetsson með fallegan smálaqx úr Haukunni í morgun.

Eins og til dæmis að núna er föstudagskvöld/nótt og síðasta miðvikudagskvöld var búið að landa 5 löxum úr Haukadalsá sem við höldum raunar að hafi opnað þann dag. Einn hafði verið dreginn úr Þverá, sem rennur í Haukuna í veiðistaðnum Blóta. Fleiri hafa bæst við síðan, það er góður slatti af laxi í ánni, en rok og leiðindaveður hefur sett mark sitt á veiðiskapinn.

Deildará á Sléttu hefur byrjað vel. Það er all nokkuð síðan að men fóru að sjá laxinn stökkva í ósnum, það er víst einstaklega flott útsýni í svoleiðis frá veiðihúsinu. Í dag/gær var fyrsti laxinn dreginn á þurrt, falleg tveggja ára hrygna og vart varð við mun fleiri fiska.

Flóka í Borgarfirði var komin með 16 laxa á þrjár stangir síðast liðið miðvikudagskvöld. Flóka er ár eftir ár með eina bestu meðalveiði á hverja stöng yfir landið og þetta er góð byrjun þar.

Nágrannáin Reykjadalsá er meiri síðsumarsá, en samt voru dregnir laxar þar á land þegar hún var opnuð þann 20.6 síðast liðinn. Þeir sem opnuðu settu í átta og lönduðu fimm, allt að 11 punda. Það er lang besta opnun á Reykjunni frá því að SVFK tók ána á leigu og það var eiginlega í fornöld.