Sjóbleikjan er spennandi sportfiskur.

Veiði hefur farið vel af stað á silungasvæði Víðidalsár sem er eitt hið albesta á Íslandi. 35 fiskar höfðu verið skráðir til bókar frá því að veiði hófst þann 20.júní, en sú veiði var öll tekin á þremur fyrstu dögunum.

Ekki er þó mikið af stórfiski enn sem komið er og bleikjurnar mest á bilinu 35 til 45 cm, ein þó um 50 cm og önnur um 60 cm. Til þessa hefur öll veiðin verið fengin á Breiðunni og í Kvíslunum þar fyrir neðan. Og helst flugurnar PT og Heimasæta. Enginn lax hefur enn veiðst, en svæðið gefur alltaf slangur á hverju sumri, ekki síst eftir að svæðið var stækkað á kostnað laxasvæðisins og meðal innlimaðra hylja eru hinir gamalkunnu veiðistaðir Efri og Neðri Laufásbreiður.

Það er gaman að segja frá því, þó að við höfum kannski gert það áður, að svæðið skartar nú nýju veiðihúsi sem er hið glæsilegasta og ágætis uppfærsla frá hjólhýsinu fræga sem eitt vorið fannst ekki fyrr en eftir mikla leit, en það hafði fokið tugi metra í stórviðri um veturinn.