Hér eru Gísli Ásgeirsson og Hilmar Jónsson með fallega hrygnu úr Selá 2016. Mynd -gg.

Þegar yfirvöld létu vita af því að landið yrði „opnað“ með vægari skilyrðum en áður frá 15.júní, glöddust veiðileyfasalar og vonuðust til að sala til erlendra aðila myndi glæðast og bjarga því sem bjargað yrði. Ekki hefur það nú samt gengið eftir enn sem komið er.

VoV ræddi við Gísla Ásgeirsson framkvæmdastjóra Strengs í dag, en Strengur höndlar sem kunnugt er með Selá og Hofsá í Vopnafirði, sem hafa verið afar vinsælar meðal erlendra veiðimanna. „Við fögnuðum mikið þegar tilkynnt var um þessa opnun og eflaust allir veiðileyfasalar. En það hefur lítið breyst, allavega enn sem komið er. Lundin er þannig í Bretlandi og Bandaríkjunum, veiran geysar þar enn af krafti. Þýskaland og Skandinavía eru að mestu opin, en samt hefur þetta litlu breytt, jafnvel þó svo að laxveiðiám Rússlands hafi verið lokað og miklar takmarkanir settar í Noregi,“ sagði Gísli.

Karen Þórólfsdóttir, Hofsá
Karen Þórólfsdóttir með fallegan Hofsárlax. Mynd Gísli Ásgeirsson.

Gísli sagði að það gæti verið margþætt hvers vegna menn tækju ekki við sér. Nokkrir hópar afbókuðu sig í miðju fárinu en það hefðu líka afbókað sig hópar eftir að yfirvöld hér tilkynntu um opnun 15.júní. „Það er ekki bara hér á Íslandi sem sóttvarnaryfirvöld hafa hvatt sína borgara til að ferðast ekki utan landssteina á þessu ári og margt benti til að margir hefðu ákveðið að virða þau tilmæli. Þá hjálpaði ekki að t.d. í Bretlandi blasti við þeim sem færu þaðan erlendis, að fara beint í tveggja vikna sóttkví við heimkomuna. Þá væri ekki enn á hreinu hvernig menn ættu að komast til landsins um og eftir 15.júní, þar sem vísbendingar eru fáar um hvernig flugi verður háttað.“

Gísli sagði og að það væru aðilar og hópar sem væru að ríghalda í að koma í sína veiði, en hvað aðra varðaði þá gæti brotthvarf þeirra 2020 mögulega haft áhrif inn í framtíðina. „Það er þannig að ef að menn hætta einhverju sem þeir hafa stundað um árabil, af óviðráðanlegum  eða öðrum ástæðum, þá eru viðkomandi fljótir að finna sér eitthvað annað til að eyða sínum fríum og fjármunum í. Og það hjálpar ekki hversu slök veiðin var á vestanverðu landinu síðasta sumar. Þó að veiðin hafi verið í fínu lagi hjá okkur þá er heildarfallið vegna aflabrestins í öðrum landshlutum það mikið að það dregur úr eftirspurn. Minni margra í þessum efnum er ekki meira en eitt ár. Það má því segja að það sé mikil óvissa framundan.“

Aðspurður um innanlandsmarkaðinn sagði Gísli: „Það eru fastir viðskiptavinir sem að nýta dagana sína í flestum tilvikum. Hvað varðar að innlendir veiðimenn fylli skörðin eftir útlendingana sem ekki koma, þá er hópur hér á landi sem er að leita að veiðileyfum á útsölu. Veiðiklúbburinn Strengur tók hins vegar þá ákvörðun að fara ekki út á svoleiðis brautir. Það stenst ekki skoðun gagnvart þeim sem hafa verslað við okkur á uppsettum verðum, að selja svo öðrum á afslætti. Það væri skammgóður vermir þó að það kæmu fleiri krónur í kassann. Frekar viljum við standa þetta af okkur og leyfa þeim sem hafa keypt af okkur að njóta þess að veiðiálag er minna, sem þýðir meira af tökuglöðum laxi fyrir þá.“