Sá stóri sem getið er um í textanum. Myndin er fengin af FB síðu West Rangá.

Vorveiði fyrir staðbundinn urriða og sjóbirting í Ytri Rangá lýkur nú um helgina. Það eru fá ár síðan að þetta svæði fór í almenna sölu og hefur reynst vel. Sjóbirtingur hefur fjölgað sér og stækkað með hverju árinu og sama má segja um staðbundna urriðann.

Í færslum á FB síðu Ytri Rangár, sem gengur þar undir nafninu West Rangá, má sjá að veiði hefur verið afar góð og fiskur vænn. Fer þar saman gæði umfram magn þó að menn hafi gert góða daga í magni. Á meðfylgjandi mynd er Arnar R.Hilmarsson með 72 cm urriða sem var að auki 43 cm í ummál. Þessir stóru fiskar skilja eftir magnaðar minningar, enda hafa þeir nægt vatn til að sýna hvað í þeim býr.