
Það kroppast upp birtingur á eystri bakka Hólsár. Þar eru menn ekki að standa yfir torfum af fiski, svæðið er víðfemt og þeir veiða best sem eru duglegir að fara víða og reyna víða.
Það er kominn slangur af fiski í bók, flestir á bilinu 50 til 65 cm en nokkrir stærri, yfir 70 cm og einn vel yfir 80 cm. Ármótin hafa verið drjúg, en eins og áður sagði, þeir sem fara víða hafa fundið fiska mjög víða, alveg frá Ármótum og niður undir sjó. Tveir lykilstaðir hafa dottið út vegna breytinga á rennsli, Renna og Höll, rétt neðan við Ármót. En þá er fiskur á öðrum stöðum. VoV kíkti þarna við í gær og heyra mátti í þrettán tegundum af farfuglum, bara af bílaplaninu. Það er allt að gerast og um að gera að koma sér út að veiða.