Harpa Hlín hjá IO að þreyta einn vænan á Barnafellsbreiðu í Skjálfandafljóti.

Norðanbálið, kuldinn og rigningin höfðu góð áhrif á laxveiðina víða, einkum þó um norðanvert landið. Auðnum var þó misskipt, ekki hækkaði eins mikið í ám á Vesturlandi og í sumum alls ekkert. Fróðlegt verður að sjá vikutölur angling.is annað kvöld, því víða hafa borist fréttir af góðum skotum og í einhverjum tilvika var nýgenginn fiskur einnig að veiðast, líkt og árnar eigi eitthvað enn inni þó að illa hafi lengstum litið út.

Haraldur Eiríksson með fallega „tveggja ára“ hrygnu úr Dölunum í morgun. Kalt, hvasst en áin ekki að ýfa sig að ráði, breyting á skilyrðum þó að skila betri veiði.

Haraldur Eiríksson sölustjóri hjá Hreggnasa greindi frá því í dag að fiskur væri að taka betur í Laxá í Dölum og það „myndi koma í ljós“ í dag hvort að yxi í ánni. Í Skjálfandafljóti var svo sem lítil þörf á auka vatni, en Stefán Sigurðsson hjá IO Veiðileyfi, sem leigir hluta af veiðidögum í ánni sagði í dag: „Skjálfandafljót er í svaka stuði þessa dagana, 16 laxar á land í fyrradag, 15-16 laxar skráðir í gær. Greinilega að koma göngur þessa dagana, það eru 6-7 laxastangir í ánni og hér er vatn og hér er fiskur.“

Þá heyrðum við utan að okkur að 160 laxar veiddust á einni viku í Laxá á Ásum og einn eftirmiðdagur í Miðfjarðará skilaði 30 löxum á land. Þessar tölur eru staðfestar í Sporðaköstum hjá mbl, kannski að okkar tíðindamaður hafi verið nýbúinn að lesa þetta þar!

En allt um það, annað kvöld koma vikutölur hjá angling.is og þá má búast við því að í einhverjum ám verði betri tölur en verið hafa þó svo að sumar þeirra hafi hlaupið í flóð part af vikunni.