Stór dagur í laxveiðinni

Þorsteinn Sverrisson með stórglæsilega hrygnu úr Víðidalsá nú síðdegis.

Það var stór dagur í laxveiðinni í dag, góður slatti af „stóru nöfnunum“ voru opnaðar, eins og t.d. Ytri Rangá, Elliðaárnar og Víðidalsá í morgun og Vatnsdalsá og Laxá í Aðaldal síðdegis.

Arnar Gauti Guðmundsson með þann fyrsta úr Laxá í Aðaldal, tekinn á Mjósundi. Mynd Jón Helgi.

Við Laxá í Aðaldal voru menn með hóflegar væntingar, enda laxar sést á ferðinni neðst í ánni. Það kom því á óvart, nokkuð, að fyrsti laxinn skyldi koma á land á Mjósundinu sem er fyrsti staður ofan Æðarfossa. „Veit ekki um annan í dag en þeir voru að elta á nokkrum stöðum. Einn svakalega stór í Miðfosspollinum,“ sagði Jón Helgi Björnsson á Laxamýri í samtali við VoV í kvöld. Laxinn á Mjósundinu var 86 cm og tók Sunray Shadow.

Jóhann Hafnfjörð Rafnsson með spengilega hrygnu úr Víðidalnum.
Jóhann H.Rafnsson og Elvar Örn með enn einn glæsifiskinn úr Víðidalsá.

Þá var ekki annað að heyra á Jóhanni Hafnfjörð Rafnssyni, sem var í opnunarhollinu, en að menn væri ánægðir með fyrstu vaktirnar. Alls fjórir komu á land í morgun og aðrir fjórir til viðbótar á seinni vaktinni. Allt stórir og fallegir laxar.

Stefán Sigurðsson með 97 cm tröllkarl úr Ytri Rangá í morgun. Mynd Harpa Hlín.
Erlendur kappi með fyrsta lax sumarsins úr Ytri Rangá í morgun.

Það var nokkuð líflegt á bökkum Ytri Rangár og lax að sjá og/eða veiðast á nokkrum stöðum sem bendir til að nokkuð sé gengið af laxi. A.m.k þrír komu á land og nokkrir láku af. Hæst bar 97 cm hængur sem Stefán Sigurðsson landaði, en hann, ásamt eiginkonu sinni Hörpu Hlín Þórðardóttur, reka Ytri Rangá. Aðrir laxar voru frá 78 og upp í 83 cm. Einnig veiddist einn sílspikaður tröllvaxinn urriði.

Þarna er Kamila Walijewska búin að landa fyrsta laxinum úr Elliðaánum 2022. Myndin er fengin af FB síðu unnenda Elliðaána og myndasmiðurÁsgeir Heiðar.

Elliðaárnar voru opnaðar með hefðbundnu sniði, Reykvíkingur ársins tók fyrstu köstin. Umræddur borgari ársins (voru reyndar tveir) var að þessu sinni Kamila Walijewska sem ásamt Marco Pizzolato  stofnaði til átaks sem nefnist Frískápar. Það er stofnað til höfuðs matarsóun með þeim hætti að fólk og/eða verslanir setja mat í umrædda ísskápa og þar getur fólk nálgast hann endurgjaldslaust. En allt um það, Kamila hóf vertíðina hafandi aldrei veitt lax fyrr. Það breyttist er hún setti í bjartan og sprækan smálax á Breiðunni neðan við gömlu brú. Þar með voru Elliðaárnar komnar af stað og væntingar góðar þar eð talsvert hefur gengið af laxi í árnar.

Þá fréttum við að opnun Laxár á Ásum, sem var raunar um helgina hefði ekki staðið undir væntingum. Fyrsta hollið aðeins fengið einn lax. Hins vegar hefur komið nokkuð skemmtilega á óvart að fjórir laxar hafa veiðst í Mýrarkvísl sem er ein af eindrægnustu síðsumarsám landsins. Kannski að það sé að breytast.