Þingvallavatn, Fish Partner
Flott mynd af glímu við 17 pundara í Þingvallavatni. Myndin er fengin að láni frá Fish Partner.

Leigutakar og veiðileyfasalar keppast nú við að kynna ný og eldri veiðisvæði sín, enda eru allir að fá skell vegna þess að erlendir veiðimenn munu vart sjást hér á landi fyrr en í fyrsta lagi um eða uppúr miðju sumri. Fish Partner hefur opnað fyrir áður lítt þekkt silungsveiðisvæði.

Kristján Páll Rafnsson, einn eigenda Fish Partner sendi okkur svohljóðandi fréttatilkynningu: „Kynning á veiðisvæðum Þingvallavatns og Úlfljótsvatns undir leiðsögn Kristjáns Páls Rafnssonar. Farið verður ýtarlega í tækni og staðhætti og nokkrir leynistaðir afhjúpaðir. Kristján ætlar að miðla áratuga reynslu sinni við vatnið til allra sem hafa áhuga á vatnakerfinu.

Kynningin verður laugardaginn 30. mai á eftirfarandi svæðum í  Þingvallavatni og Úlfljótsvatni; Villingavatni, Svörtuklettum, Kárastöðum, Kaldárhöfða og Efri Brú. Það verða tvær kynningar þennan dag. Önnur klukkan 10:00 og hin kl.15:00. Við munum hittast á bílastæðinu við Þrastalund á settum tímum og fara í kring um vötnin. Síðan endum við í veiðihúsinu okkar að Efri Brú þar sem verður farið yfir málin og grillaðar pylsur. Það er gott ef menn geta verið sambíla til að hafa halarófuna ekki of langa. Þetta er gullið tækifæri og alls ekki víst að þetta verði nokkurn tíma endurtekið.

Á heimasíðu Fish Partner er hlekkur þar sem þess er vænst að menn skrái sig. Það sé lykilatriði.