Falleg sjón í Kistukvíslinni

Kistukvíslin í Laxá í Aðaldal, böðuð í sólskini dagsins. Þarna eru þeir að renna í gegn. Mynd Jón Helgi Björnsson.

Óhætt er að segja að vel líti út með opnun Laxár í Aðaldal þótt enn séu tíu dagar þangað til að Laxamýrabændur opna fyrir neðan Æðarfossa. Ekki kæmi á óvart þó að silungsveiðimenn settu í laxa ofar í ánni áður en að það gengur eftir. Það blasti við falleg sjón í Kistukvíslinni í dag.

„Kíkti áðan og sá fjóra í Kistukvísl. Þrjá við Staurinn og einn í Sjávarholu. Einn þessara laxa var svakalegur bolti,“ sagði Jón Helgi Björnsson á Laxamýri í skeyti til VoV í dag. Þetta eru ekki þeir fyrstu sem sjást í ánni á þessu snemmsumri, þannig að fiskur er að ganga í Laxá og þar á bæ eru menn svo heppnir að áin er feykilega vatnsmikil og snjóleysi og þurrkar trufla ekki laxinn þar.