Vopnafjarðarárnar líta vel út

Frá Hofsá. Ekki ný mynd. Mynd Nils Folmer.

Vopnafjarðarárnar Selá og Hofsá opna á næstu dögum og hafa menn velt fyrir sér við hverju má búast á þeim bæjum, en báðar tóku dálitlar dýfur í fyrra eftir að hafa verið á góðu skriði sumrin á undan. Mikið vatn hefur verið í ánum, mikill snjór í fjöllum og svo gekk óhemjulegt vatnsveður yfir í lok síðustu viku.

Vatnsveðrinu fylgdu vatnavextir og grugg, ofan í árnar sem voru vatnsmiklar fyrir. Skjóta má inn að Fögrhlíðarós sem fellur í Héraðsflóa varð gersamlega óveiðandi eftir að lægðin lét vaða með regni og brennisteini. Var eins og rauðbrúnn hafsjór yfir að líta. Mjög hefur þó sljákkað í ánum síðustu daga. En með horfurnar, erfitt að segja. Hofsá verður varla skyggnd, en öðru máli gegnir um Selá þar sem sjá má laxinn ofan af klettum við Fossbreiðu. Ekki hefur þó verið mikið svipast um eftir honum sökum vatnshæðarinnar

Eyþór Bragi Bragason, stjórnarmaður í Veiðifélagi Hofsár, leiðsögumaður og veiðimaður, sagði að útlit væri fyrir því að Hofsá yrði hin veiðilegasta við opnun. „Hún er falleg núna, öll að koma til eftir demburnar, og mestu skiptir að vorið hefur verið mjög gott. Þá þrífst lífríkið.“ VoV hefur verið í stússi í Vopnafirðinum síðustu daga og í dag voru bæði Hofsá og Selá gríðarlega líklegar að sjá, en svo leiðir tíminn í ljós hvað gerist.