Black Ghost, Tungulækur
Black Ghost góður, ævinlega. Væn hrygna, 81 cm, úr Tungufljóti. Mynd gg.

Veiðileigutakinn Fish Partner hefur mörg frábær svæði á sinni könnu, en ekki hneig stuðullinn með nýja svæðinu þeirra. Þeir eru teknir við Tungufljóti í Vestur Skaftafellssýslu, einhverju magnaðasta sjóbirtingsveiðisvæði landsins og þótt víðar væri leitað.

Í fréttatilkynningu frá Fish Partner segir: „Það er hin fornfræga sjóbirtingsá Tungufljót í Skaftártungu. Án efa ein allra besta sjóbirtingsá landsins. Í fljótinu hafa veiðst margir gríðarstórir birtingar síðastliðin ár og hafa sumir þeirra verið vel yfir tuttugu pundin. Einnig veiðist þar slangur af laxi og stöku bleikja. Eingöngu verður veitt á flugu og skylt verður að sleppa öllum veiddum fiski. Rúmgott veiðihús fylgir ánni sem er með fjórum tveggja manna herbergjum og tveimur baðherbergum. Húsið verður endurbætt að innan sem að utan fyrir komandi vertíð, þannig að vel ætti að fara um menn þar á komandi árum. Við bjóðum Tungufljót velkomið í flóru Fish Partner!“

Sjóbirtingurinn í Vestur Skaftafellsýslu er margfrægur. Hann er náskyldur genalega séð Þingvallaurriðanum. Sem þýðir að hann verður eldgamall, hrygnir oft og verður risastór! Tungufljót er eitt af hans sterkustu vígjum. Síðustu árin hefur Einar Lúðvíksson verið með ána, þar á undan SVFR. Núna Fish Partner.