Laxfoss, Laxá í Leirársveit
Laxfoss í Laxá í Leirársveit. Þar hafa laxar verið á sveimi síðustu daga. Myndin er fengin að láni frá FB síðu leigutaka árinnar.

Laxinn virðist vera að ganga með fyrra fallinu í ár, það er að vísu ekkert óvenjulegt við að sjá lax og lax um og uppúr miðjum mai, en magnið virðist vera nokkuð að þessu sinni. T.d. í Laxá í Leirársveit.

Laxá í Kjós, Kvíslafoss
Kvíslafoss í Laxá í Kjós, þar er laxinn líka farinn að sýna sig. Mynd Heimir Óskarsson.

„Það hefur verið ansi líflegt í Laxá í Leirársveit síðustu daga miðað við árstíma. Í fyrradag sáust tveir vænir laxar í Laxfossi og í dag voru þeir orðnir tíu. Neðar, neðan við brú, mátti sjá aðra tíu þar sem þeir gjarnan sveima um á fallaskiptum. Það er vaxandi straumur núna. Það var vanur maður sem varð vitni að þessu, maður sem veitt hefur lengi í Laxá og þekkir vel til. Hann hefur fylgst grannt með henni á vorin og hefur aldrei séð svo mikið líf svo snemma,“ sagði Haukur Geir Garðarsson, einn leigutaka Laxár í Leirársveit í samtali við VoV í dag. Hann sagðist einnig hafa haft spurnir af því að menn hefðu séð fyrstu laxana í Laxá í Kjós, þannig að það liti út fyrir að veiðin gæti orðið góð, eða samkvæmt spám á þessu ári, ekki síst þar sem enn sé talsverður snjór í fjöllum og enn ekki komið mikil snjóbráð í árnar þó að hlýnað hafi.

Við greindum frá stökkvandi löxum í Urriðafossi í Þjórsá í gær og í dag sást til ferða fleiri laxa á sömu slóðum. Þá má búast við því að fyrst að lax er kominn í Laxárnar tvær í Kjós og Leirársveit, þá sé nánast hunrað og fimmtu prósent öruggt að hann sé kominn í Kjarrá. Og jafnvel víðar.