Líf í Langá á fyrsta degi – UPPFÆRT

Gústaf Vífilsson með fallega hrygnu úr Kerstapafljóti í Langá í morgun.

Eitthvað er nú að gerast í opnun Langár í morgun. Fullsnemmt er að koma með tölur, enda margar stangir að veiða á löngu svæði. Það er klárlega lífsmark samanber mynd sem okkur  barst í morgun frá Gústafi Vífilssyni sem hefur verið í opnun árinnar um árabil.

Myndin er af Gústafi með fallega  hrygnu sem tók Sunray Shadow í Kerstapafljóti, en sá veiðistaður er sá næsti fyrir ofan Skuggafoss. Þetta er ekki í fyrsta sinn í byrjun sumars sem fyrstu laxarnir eru ekki að veiðast á hefðbundnum vorveiðistöðum, í gær komu t.d. fyrstu laxarnir úr Laxá á Ásum úr Tuma og Fluguhyl og í Grímsá var það Lækjarfoss sem gaf fyrsta laxinn, sá staður er rétt ofan búarinnar við Fossatún. Þá eru tvö tilvik um laxa dregna af silungasvæðum áður en laxavertíðin hæfist, Húseyjarkvísl og Elliðaánum og í seinna tilvikinu var veiðistaðurinn Höfuðhylur, sem er sá efsti í ánni. En við náum vonandi frekari tíðindum af Langá áður er dagur er að kveldi kominn.

UPPFÆRSLAN: Laxarnir úr Langá í morgun voru tveir, sá fyrri sá sem við gátum áður um úr Kerstapafljóti, þar misstist annar, hinn, hinn veiddi Sigurjón Gunnlaugsson í Strengjunum. Sá var með lús. „Sáum lítið af fiski,“ sagði Gústaf Vífilssonnú í hléinu.