Líflegt í Langá í morgun

Gústaf Vífilsson með væna hrygnu af Breiðunni í Langá í morgun.

Það var strax líflegt á bökkum Langár í morgun þegar áin var opnuð. Ekki liggja fyrir tölur eftir fyrstu vakt, en lax hafði sést víða í ánni og menn voru að setja í fiska. Þá var flott opnun í Grímsá á þjóðhátíðardaginn. Laxá á Ásum opnaði líka, en það var rólegt þar á bæ.

Erlendur veiðikappi með lax úr Laxfossi á opnunardeginum.

Við fáum vonandi tölur frá Langá seinna í dag, en í Grímsá komu níu á land á fyrsta degi sem er líklega besta opnun þessa sumars að Urriðafossi undanskyldum. Í Grímsá var laxinn bæði vænn og smár og veiddust laxar allar götur upp í Strengi, en mest samt í Laxfossi eins og oftast er á þessum árstíma.

Elliðaárnar opna í fyrramálið þar sem borgarstjórinn opnar ásamt Reykvíkingi ársins. Mikið líf hefur verið í ánum síðustu daga og mikið af laxi víða neðan við teljara. Má því búast við líflegri opnun.