Það má alveg rýna í einstakar tölur

Árni Baldursson að glíma við vænan lax í Kjarrá í vikunni. Mynd Vala Árnadóttir.

Það má alveg rýna í einstakar tölur nú þegar frekar lítið er eftir af laxasumrinu og öll teikn benda til slaks sumars. Mikið talað um að „eiga inni“ en svo hafa einstakar ár átt mismikið inni þegar til kastana kom. Við ætlum að rýna hér í nokkrar tölur og kannski koma fleiri seinna.

Okkur er efst í huga núna, Laxá í Kjós, Selá og Hofsá. Laxá í Kjós var með 723 laxa í síðasta vikuuppgjöri angling.is en gaf alls 929 laxa í fyrra sem var mikil framför frá 2020. Þannig að ekki er víst að áin jafni tölu síðasta sumars. En eins og flestar ár á vestanverðu landinu hefur Kjósin lengst af verið vatnslítil. Og svo má ekki gleyma lykilatriði: Stöngum fækkað þar úr 8 í 6.

Og hvað með Selá og Hofsá, báðar nú langt að baki tölum síðustu sumra, þegar Selá var með bestu ám og Hofsá á góðri uppleið eftir hrikalegar skelfingar flóða fyrri ára þegar árgangar þurrkuðust úr.

Hofsá með 526 laxa en gaf í fyrra alls 1017 laxa og fór þá í fjögurra stafa tölu í fyrsta skipti í mörg ár. Þetta er ekki búið í Hofsá, en hún kemst ekki nálægt lokatölu síðasta sumars. Varla þarf um það að deila. Og Selá? 708 laxar í vikuuppgjöri angling.is, farið að styttast mjög í lokin og lokatalan í fyrra 1258 laxar. Stefnir í miklu lægri tölu.

En hvað Vopnafjarðarárnar varðar þá eru allir viðmælendur VoV nokkurn vegin sammála um að talsvert hafi gengið af laxi í árnar, en hvað með aðstæðurnar. Í allt sumar hefur verið viðvarandi hitabylgja á Norðausturlandi. Það hefur aldrei þótt hagstætt að veiða lax í 20-plús stiga hita, hvað þá viku eftir viku eftir viku. Svona hluti þarf að sjálfsögðu að taka með í reikninginn þegar hlutirnir eru gerðir upp.

Það sem þessar vangaveltur velta kannski upp er stærsta spurningin: Loftslagsbreytingar. Verða svona öfgasumur í veðurfari viðvarandi? Tökum sem dæmi Vatnsá í Heiðardal, í mesta rigningarbæli landsins, fékk ekki deigan dropa úr lofti fyrr en komið var fram í september.  Ef svo verður, mun þá veðurfar ekki bæði hafa áhrif á veiði og jafnvel lífsskilyrði laxa?