Það var margt til sýnis

Eins og fram hefur komið þá var haldin Íslenska fluguveiðisýningin í vikunni með tilheyrandi uppákomum og kvikmyndasýningum. Þetta tókst frábærlega eins og við mátti búast, en hér kemur umsögn og nokkrar myndir…

Reiða öndin
„Reiða öndin“ í góðu skapi.

Gunnar Örn Petersen, annar tveggja skipuleggjenda sýningarinnar sagði m.a. „Fjölmenni var á Íslensku fluguveiðisýningunni sem fram fór í gær, miðvikudag, í Háskólabíó. Dagskráin var fjölbreytt og má þar nefna að Klaus Frimor kynnti veiðar á steelhead, fluguhnýtarar, þar á meðal Skúli Kristins og Engilbert Jensen, sýndu listir sínar og veiðibúðir og veiðileyfasalar kynntu vörur sínar.

hnýtingarkeppni
Hnýtingarkeppi með bundið fyrir augu…

Þá var áhugaverð málstofa um sjókvíaeldi og þar var meðal annarra í pallborði Jón Þór Ólason formaður stjórnar SVFR sem var harðorður í garð eldismanna og stjórnvalda og ljóst er að með nýjum formanni mun SVFR verða mikilvæg rödd í þeirri baráttu sem framundan er við þessa miklu vá.

Fyrsta Iron Fly fluguhnýtingarkeppnin hér á landi var einnig haldin á hátíðinni og skapaðist mikil stemmning í kringum hana.

Sturla Birgisson, Nils Folmer, Jói Rafns
Þrír stórir í bransanum, f.v. Sturla Birgisson, Nils Folmer Jörgenson og Jói Rafns.

Þar hnýttu keppendur m.a. með bundið um augu og fluguna Donald Trump. Gunnar Helgason stýrði dagskrá í sal og fór hann eins og ávallt á kostum. Kvöldinu lauk síðan með kvikmyndahátíðinni IF4. „