Messinn, Sumac
Skilaboðin eru skýr, Messinn og Sumac loka á lax úr opnum sjókvíum.

Eins og við gátum um fyrir skemmstu riðu nokkrir veitingastaðir á vaðið og lokuðu á viðskipti við framleiðendur á eldislaxi úr opnum sjókvíum. Var fyrst greint frá þremur stöðum, en þetta reyndist vera snjóbolti sem er byrjaður að vinda uppá sig. Fleiri eru komnir í hópinn og aðrir búa sig undir að vera með.

Fyrstur var Nuno með Apótekið sitt og strax í kjölfarið Messinn og Numac. Nú hafa sjö til viðbótar bæst í hópinn, Grillmarkaðurinn, Fiskmarkaðurinn, Grái Kötturinn, Sushi Social, Tapasbarinn og Sæta Svínð.  Skilaboðin eru, að viðkomandi veitingastaðir bjóða ekki upp á eldislax úr opnum sjókvíum heldur eldislax sem alinn er í sjálfbæru landeldi. Skilaboðin eru á blálituðum límskiltum við innganga umræddra veitingastaða. Það er kominn vísir að „slogani“ „Leitið að bláa miðanum. Iceland Wildlife Fund stendur að átakinu og þar á bæ fengum við þær upplýsingar að fleiri tíðinda væri að vænta á þessu sviði, en að sögn Ingólfs Ásgeirssonar sem fer fyrir IWF lítur sjóðurinn svo á að laxeldi í opnum sjókvíum sé mesta umhverfisvá sem Ísland hefur staðið frammi fyrir í langan tíma.