Laxá á Ásum
Laxá á Ásum á kannski eitthvað inni.

Talandi um Selá í síðustu frétt, nokkrar ár áttu greinilega talsvert inni þegar að skilyrði bötnuðu með stórrigningunni á dögunum. Ein af þeim var Laxá á Ásum sem að átti 144 laxa viku á stangirnar sínar fjórar.

Þar með var áin komin í 502 laxa, en á sama tíma í fyrra voru komnir 522 laxar og því sumri lauk með veiði upp á 702 laxa. Alls ekki Laxá á toppnum eins og „gamla daga“, en hún er allavega ekki lakari heldur en í fyrra og miðað við hvað gerðist þegar skilyrði bötnuðu er alls ekki úr vegi að gera sér vonir um að áin verði betri í sumar en í fyrra og gangi það eftir, mun hún verða ein af fáum sem státar af því á þessu skrýtna sumri. Að sögn Sturlu Birgissonar umsjónarmanns árinnar var talsvert af laxi í ánni í þurrkunum, en tók afar illa. Gömlu laxarnir fóru svo að taka þegar regnvatnið skilaði sér og ekki nóg með það, það komu göngur af nýjum fiski, þannig að horfur eru bara mjög góðar með Laxá á Ásum það sem eftir lifir vertíðar.

Og af því að við vorum að tala um meðalveiði á stöng í Selá í síðustu frétt, þá skal því bætt hér við að meðalveiði á stöng í Laxá á Ásum, þá veiðiviku sem lauk s.l. miðvikudag var 5,1 lax, sem er frábært hvar sem er og hvenær sem er.