Leirá, Iceland Outfitters
Veitt í Leirá, en eins og sjá má er hún huggulegasta spræna í góðu vatni. Myndine r tekin að sumri. Mynd, IO.

Iceland Outfitters, alias Harpa Hlín Þórðardóttir og Stefán Sigurðsson hafa tekið á leigu Leirá í Leirársveit, afar lítt þekkta en að sama skapi athyglisverða veiðiá þar sem bæði veiðist sjóbirtingur og lax.

Leirá, Iceland Outfitters
Þunnur greyið, en fallegur samt, sjóbirtingur veiddur í Leirá fyrir fáum dögum. Mynd IO.

„Við erum með ána næstu þrjú árin. Þetta er er nett tveggja stanga á með fjögurra kílómetra löngu veiðisvæði. Þarna er lax og sjóbirtingur. Við erum með vorveiði á birtingi og hún hefur gengið alveg þokkalega það sem af er, en mest veiðist neðan við brúna á þjóðveginum. Það er bara fluguveiði og öllu sleppt. Fínt lítið hús sem fylgir,“ sagði Harpa Hlín í samtali við VoV.

Leirá þekkja þeir sem þarna fara um. Þetta er lítil og nett spræna með einstaklega veiðilegum veiðistað rétt neðan brúar. Ofar eru líka flottir staðir. Harpa telur að besti tíminn í ánni sé frá miðjum ágúst og fram á haustið. Lítið finnst um hana í veiðiskýrslum Veiðimálastofnunnar en hún hefur varla verið veidd þannig í gegnum tíðina að mikið hafi verið að marka þær tölur sem opinberar hafa verið. Þetta er engin magnveiði, en VoV hefur sitthvað fyrir því að þarna geti veiðst nokkrir tugir laxa í góðu ári og annað eins af birtingi. Birtingur er nokkuð sterkur á þessum slóðum, eða frá Laxá í Kjós og vestur í Álftá. Leirá er ekki undantekning og sterkur stofn þar.