Hér eru Gísli Ásgeirsson og Hilmar Jónsson með fallega hrygnu úr Selá 2016. Mynd -gg.

Boðaðar hafa verið nýjar reglur um veiðskap í Selá í Vopnafirði sem taka gildi á komandi sumri 2020. Þetta mun koma á óvart og spurning hvort að fleiri munu fylgja í kjölfarið. Fyrir er Selá laxveiðiá með aðeins flugu og veiða og sleppa, en nú er gengið skrefinu lengra, sem er í anda þeirra strauma sem verið hafa þar eystra síðustu misseri.

Sem sagt. Frá og með sumrinu 2020 er bannað að veiða með þyngdum túpum. Og það er líka bannað að veiða með sökkendum. Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Strengs sagði í samtali við VoV í dag að um tilraun væri að ræða. Sú tilraun gæti staðið yfir nokkur sumur, allt eftir því hvaða niðurstöður kæmu fram. „Ef við skoðum kúrfuna yfir veiði á heilu sumri, þá er stígandi frá opnun, veiðin nær svo hæstu hæðum um hásumar og dalar svo þegar líður á haustið. Við viljum sjá hvort að við getum með þessum jafnað út veiðina yfir vertíðina þannig að allir sem kaupa hjá okkur veiðileyfi séu við sama borð. Auðvitað eru allar breytingar umdeildar, margt hefur breyst síðustu árin, en flestar þessara breytinga hafa haft góð áhrif og enginn hefur skilað inn leyfunum sínum í Selá fyrir 2020. Þá gerum við líka þá breytingu að allar stangir í Selá eru með leiðsögumann. Flestar hafa verið það hvort eð er, en nú verða þær allar. Þetta snýst ekki um að fylgjast með hvort að menn virða veiðireglubreytingar, heldur mun frekar að laxveiðimenn eru að eldast og fáir ungir veiðimenn að bætast við. Selá er þannig á að ekkert má út af bregða. Þannig að við vonum og reiknum með því að þessar breytingar verði í alla staði farsælar,“ sagði Gísli.