Veiðin í Veiðivötnum betri en í fyrra

Ingvar A Sigurðaaon með 13,6 punda urriða úr Ónýtavatni, sem stóð greinilega ekki unndir nafni. Mynd Bryndís Magnúsdóttir

Veiðin í Veiðivötnum var betri í ár en í fyrra, þrátt fyrir óvenjulega kalt vor. Um leið og sumarið tók við sér var veiðin góð og margar fallegar veiðisögur urðu að veruleika. Stangaveiðitímanum í Veiðivötnum er nú lokið, netaveiðitíminn tekinn við. Svo er seiðum sleppt. Þetta segir á Veiðivatnavefnum:

Kristinn Hilmarsson með 10,5 punda tröll úr Kvíslavatnagíg. Mynd Bryndís Magnúsdóttir.
„Stangveiðitímanum í Veiðivötnum lauk 18. ágúst og nú er netaveiðitíminn hafinn. Alls fengust 19049 fiskar á stangveiðitímanum, 10532 urriðar og 8517 bleikjur. Þetta er betri veiði en á síðasta ári. Munar þar mestu um meiri afla úr Litlasjó. Flestir fiskar komu á land úr Snjóölduvatni, 4706 en úr Litlasjó fengust 4440 fiskar.
Þyngsti fiskurinn er 16,0 pd urriði úr Grænavatni. Stórir fiskar, um og yfir 10,0 pd fengust einnig í Skálavatni, Hraunvötnum, Ónýtavatni, Ónefndavatni, Litla Breiðavatni og Kvíslarvatnsgíg.“
Lesendum er bent á vefinn www.veidivotn.is þar er að finna allt saman sundurliðað.