Vænn urriði kom uppúr einni vökinni. Myndir tók Matthías Þór Hákonarson.

Nú fara að verða síðustu forvöð að spreyta sig á dorgveiði niður um ís. Líklega er það víða orðið fremur hættulegt, en sagan segir að ísinn sé víða þynnri en oft áður svona í lok vetrar. Hér eru skemmtilegar myndir að norðan…

dorgveiði, ísveiði
Fallegur dagur að kvöldi kominn.

…dorg er nú svo sem ekki mikið stundað, sem kemur dálítið á óvart því dorgveiði hefur alla kostina, að veiða fallega fiska í soðið í fallegu umhverfi. Ef til vill finnst fólki þetta vera kuldaleg veiði, en athyglisvert er að aldrei hefur skapast hér dorgveiðihefð líkt og t.d. við Vötnin miklu á mörkum Bandaríkjanna og Kanada, en þar er gnótt fiskjar og hafa menn með sér allskonar útgáfur af tjöldum og skýlum, allt frá örsmáum sem bjóða bara upp á skjól og upp í nánast litlar íbúðir þar sem hægt er fíra upp í prímusi og láta fara vel um sig í hægindastólum.

Myndirnar eru frá Kringluvatni í Suður Þingeyjarsýslu og þær tók Matthías Þór Hákonarson veiðileyfasali á Akureyri, en hann fór með fjóra erlenda gesti í dorgveiði. „Þetta var fín ferð, veðrið gott og við fengum nokkra fiska. Allir voru himinlifandi,“ sagði Matthías í samtali við VoV. Hann sagði ennfremur, eins og fleiri, að ísinn væri óvenjulega þunnur miðað við síðustu ár.