Enn er veitt í Eystri en Ytri búin að loka

Lang hæst yfir landið

Árni Kristinn Skúlason þekkir Eystri býsna vel og hann skrapp þangað á dögunum og landaði sínum stærsta laxi, 101 cm

Enn er hægt að skreppa austur í Rangárþing og næla sér í lax því umsjónaraðilar Eystri Rangár hafa ákveðið að hafa ána opna til næst komandi fimmtudags, 27.10. Hins vegar er búið að loka Ytri Rangá og lokatölur hennar liggja fyrir.

Það kemur sum sé fram á FB síðu Eystri Rangár að áin verði opin til 27.10 sem er næsti fimmtudagur. Síðasta tala úr ánni á angling.is er frá 12.10 en þá voru komnir 3229 laxar á land. Síðan hefur veiði verið prýðileg og víða mikið af laxi í ánni. Aðallega stórlaxi eins og fram hefur komið í fréttum í sumar. Alla síðustu vertíð veiddust 2749 laxar í Eystri þannig að hún er mun betri í ár og þriðja hæsta áin í heildartölum yfir landið, aðeins Ytri Rangá og Miðfjarðará eru fyrir ofan hana.

Veiði lauk hins vegar í Ytri Rangá um helgina og var lokatalan 9223(8803 í fyrra) og líkt og í Eystri Rangá var stórlax verulega áberandi í aflasamsetningunni