Stemming á pallinum. Stund milli stríða.

Laxveiði er víða lokið og á heimasíðu angling.is má sjá lokatölur úr mörgum ám. Ekki ætlum við að velta okkur uppúr þeim að þessu sinni en verðum ef til vill með frekari greiningar úr einstökum ám er fráa líður. Það er samt áhugavert að skoða vikutölur úr þeim ám sem ekki eru skráðar sem lokaðar.

Baldur með einn flottann sem hann skilaði samstundis til síns heima.
Viss tegund haustlita.

Það er alkunna að veiðisumarið hefur ekki verið gott þó að ár á Norðausturhluta landsins hafi verið í stíganda frá fyrri árum. Ein og ein undantekning á Norðurlandi er finnanlag, t.d. Laxá á Ásum og  Hrútafjarðará. Þá má vel við una í stöku á sem lakari afla en í fyrra og má þar nefna t.d. Miðfjarðará.

Með aukinni notkun samfélagsmiða á borð við Facebook hafa veiðimenn og konur þó getað fylgst með og þó að lélegt laxasumar sé senn að baki að fullu, þá hafa orðið til margar veiðisögur að venju og margir hafa lent í „skotum“, sérstaklega þó eftir að veðurfar breyttist um síðustu mánaðamót. Þá hefur margur átt ógleymanlegar stundir við sjóbirtings- og vatnasilungsveiðar. Vertíðin 2019 er því smekkfull af góðum minningum þó að harðlífi hafi verið vikum saman yfir hásumarið og hinn annálaða „besta tíma“ laxveiðinnar, sem er það þó oft ekki, jafnvel miklu meira er af laxi.

Hér verður ekki birtur gamli stóri listinn með öllum vikutölunum. Fyrir þá sem vilja grjótharða lokatölu vísum við á angling.is. En við tíndum til nokkrar ár sem ekki eru þar skráðar með lokatölu og rýnum í veiði síðustu viku, þá sem endaði s.l. miðvikudagskvöld. Fyrri talan er sem gefin var upp það kvöld, seinni talan er þá sem sagt vikuaflinn.

Eystri Rangá   2899 – 30

Ytri Rangá       1592 – 66

Laxá í Dölum     695 – 62

Grímsá               687 – 46

Langá                 659 – 21

Svalbarðsá        476 – 5

Vatnsdalsá        420 – 25

Jökla                   402 – 20

Hafralónsá         377 – 9

Hrútafjarðará    375 – 10

Laxá í Kjós          328 – 53

Stóra Laxá          312 – 43

Affall                   290 – 15

Deildará              238 – 27

Fnjóská                167 – 12

Þverá í Flj.           140 – 9

Ekki er að finna nýjar tölur á angling.is úr ám á borð við Þverá/Kjarrá, Hítará, Haukadalsá, Blöndu, Víðidalsá og Leirvogsá, svo að þekktustu nöfnin séu tínd til. Vel má reikna með að sumum þeirra áa sem við listuðum hér að ofan hafi verið lokað, einfaldlega eigi eftir að hnýta lausa enda áður en lokatala verði birt. En varla á það eftir að breyta listanum mikið. Víst er þó að ár sem byggja á gönguseiðasleppingum, eins og báðar Rangárnar, Affall og Þverá syðri eru opnar mun lengur heldur en sjálfbæru árnar. Miðfjarðará fær því væntanlega ekki að sitja lengi í sínu 2.sæti því Ytri Rangá var með aðeins 14 löxum minni veiði á miðvikudagskvöld og búið að loka Miðfjarðará.

Hefðbundnir haustlitir.

Við verðum með eitthvað af frekari greiningum á næstunni, en á VoV fer fréttaflutngingurinn nú að mestu yfir í að fylgjast með sjóbirtingsveiðinni, auk þess sem Veiðislóð, áskriftarhlutinn okkar, mun glæðast á ný með viðtölum og öðru skemmtiefni, t.d. flugukynningum, græjupistlum og kynningum á áður lítt þekktari veiðisvæðum. Við fylgjum þessum pistli eftir með fallegum hauststemmingsmyndum sem að Baldur Ólafur Svavarsson lét okkur í té.