Veitt neðst í Berghyl, eins og sjá má eru enn reffilegir skaflar niðri í byggð.

Við greindum í gær frá fyrstu dögum Vatnsár, hér erum við með aðra á sem að fer seint í gang, Fljótaá í Fljótum í Skagafirði. Þar eru menn að lenda í góðum málum.

Bretinn Jack Craig með vænan smálax úr Berghyl. Myndir eru allar frá Vigfúsi Orrasyni.
Jack Craig búinn að setja í lax í Bakkahyl, leiðsögumaðurinn Árni Jörgensen skundar af stað til að sækja háfinn.

Við heyrðum í Vigfúsi Orrasyni sem heldur utanum veiðiskapinn í Fljótaá, tók við því kefli þegar faðir hans Orri Vigfússon andaðist, en hann hafði um árabil verið leigutaki og umsjónarmaður í samstarfi við stangaveiðimenn á Siglufirði. Vigfús lét vel af veiðiskap í ánni og horfum, en hann sagði: „Ég var að koma úr Fljótunum, gat þó ekki veitt sjálfur, því miður. Laxinn var seint á ferðinni, seinna en undanfarin ár en þó ekki óeðlilega seint til langs tíma litið. Undanfarna daga hafa menn orðið varir við lax á öllum svæðum og í mörgum hyljum. Síðasta holl endaði með 11 laxa eftir 4 daga með rólegri ástundun en áin er ekki endilega stífveidd þótt nú sé besti tíminn að hefjast.

Jack Craig hinn breski sleppir smálaxi í Bakkahyl.

Ef ég hefði verið spurður í vetur hefði ég sagt að 11 laxar á þessum 4 dögum væri heldur dapurt en miðað við ástandið á landinu í dag er ég mjög sáttur við það. Í Fljótaá er líka nóg vatn og enn snjór í fjöllum, jafnvel við ósa árinnar eins og sjá má af mynd hér frá Berghyl. Það sakar líka ekki að hafa vatnsmiðlun.

Fljótaá er líka sneisafull af bleikju og þeir sem gera sér sérstakt far um að veiða hana ættu að veiða mjög vel. Hópurinn sem var að hætta reyndi ekkert við bleikjuna en fékk samt yfir 60 stykki og hirtu 4 í matinn. Ekki eru komnir nema um 30 laxar í bókina en þeir hafa langflestir komið nýlega og nú eru að veiðast vænir nýgengnir smálaxar. 3 laxar yfir 90 cm eru komnir á land og auðvitað einn „miklu stærri“ misstist.“