Væntanlega er öllum enn í fersku minni ástandið á vatnsbúskap í ám í Landbroti og Meðallandi síðasta sumar, þegar langir kaflar í Grenlæk þornuðu algerlega og vatnsstaða í fleiri ám eins og Tungulæk og Eldvatni féll geigvænlega. Fyrir rest var vatni hleypt út á Eldhraun og ástandið batnaði, en hver ætli staðan sé núna?

Við heyrðum í kunnugum mönnum á þessum slóðum og fengum að vita að lokað hafi verið fyrir áveiturnar 8.september síðast liðinn vegna Skaftárhlaups. Þá hafi vatn í ám á svæðinu fljótlega farið að minnka þrátt fyrir að vel hafi rignt meira og minna allt haustið. Þrátt fyrir að opnað hafi verið aftur fyrir veiturnar þá er vatn minnkandi, en það mun vera eðlilegt í janúarmánuði því að öllu jöfnu er þá úrkoman hvít. En lækkað hefur þrátt fyrir að lítið hafi snjóað og klaki í lágmarki. Áveitan sem nú er opin er með leyfi fram í júní og eftir það veit enginn hvað gerist. Það er þó mál manna að ef ekkert hefði verið aðhafst í vatnaveitingum þá hefði ástandið á komandi vori verið enn verra heldur en það sem menn upplifðu í fyrra vor og fram eftir sumri.

Á myndinni má sjá hvernig ástandið var í Fljótsbotni í júlí í fyrra , mörkin sjást greinilega en þó var byrjað að hækka í vötnum á þessu stigi málsins. Myndina tók Jón Eyfjörð.